Meirihluti efnahags- og skattanefndar lagði á föstudagskvöld fram breytingartillögu við frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem fól það í sér að í stað þess að virðisaukaskattur yrði hækkaður á vörur, hinn svokallaði sykurskattur, skyldi greiða vörugjald af hverri vöru.

Tillagan var lögð fram við lokaafgreiðslu nefndarinnar á frumvarpinu en fyrr um daginn hafði nefndin samþykkt við fyrstu og aðra umræðu að halda hækkun á virðisaukaskatti.

Í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar kemur fram að breytingartillagan sé lögð fram í þeim tilgangi að „sætta þau ólíku sjónarmið sem fram komu í umræðu innan nefndarinnar,“ eins og það er orðað í áliti hennar.

Þar með er búið að taka aftur upp það vörugjaldskerfi á matvæli sem aflagt var með lögum sem samþykkt voru í lok árs 2006 og tóku gildi þann 1. mars. 2007. Þá er vörugjaldið jafnframt tvöfaldað frá því sem áður var.

Í áliti nefndarinnar kemur fram að samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins ætti tillaga meiri hlutans að skila ríkissjóði 2,5 milljörðum króna á ársgrundvelli og, að sögn nefndarinnar, svipuðum verðlagsáhrifum þegar á heildina er litið.