Sylvía Kristín Ólafsdóttir, stjórnarmaður í Símanum hf. hefur tilkynnt stjórn Símans hf. að hún óski eftir að fara úr stjórn félagsins vegna breytinga á starfsvettvangi, en hún hefur verið ráðin til Origo frá Icelandair.

Hjá Origo hefur hún tekið við sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála auk þess að taka sæti í framkvæmdastjórn að því er Fréttablaðið greindi frá. Sylvía hefur setið í stjórn Símans hf. frá 15. mars 2018 en félagið segir í tilkynningu til kauphallar að það hafi ákveðið að fresta kjöri nýs stjórnarmanns til næsta aðalfundar þess.

Viðskiptablaðið sagði frá því í byrjun sumar 2018 þegar hún tók við sem forstöðumaður nýrrar stuðningsdeildar flugreksturs Icelandair. Tæpu ári áður var sagt frá því að hún hefði tekið við sem deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði Landsvirkjunar, en þá hafði hún starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2015.

Þar áður hafði hún starfað hjá Amazon í Evrópu, sem hún sagði frá í viðtali við Viðskiptablaðið í kjölfar ráðningarinnar til Icelandair, auk þess að hafa starfað hjá fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Auk stjórnarsetunnar hjá Símanum hefur hún setið stjórn Ölgerðarinnar og í starfshópi um Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið.