*

sunnudagur, 16. maí 2021
Fólk 25. janúar 2021 09:45

Sylvía Kristín hættir í stjórn Símans

Stjórnarmaður hjá Símanum hættir í kjölfar ráðningar til Origo en áður starfaði hún hjá Icelandair, Landsvirkjun og Amazon.

Ritstjórn
Sylvía Kristín Ólafsdóttir er farin frá Icelandair til Origo en áður var hún hjá Landsvirkjun, Amazon, Seðlabanka Íslands og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Þröstur Njálsson

Sylvía Kristín Ólafsdóttir, stjórnarmaður í Símanum hf. hefur tilkynnt stjórn Símans hf. að hún óski eftir að fara úr stjórn félagsins vegna breytinga á starfsvettvangi, en hún hefur verið ráðin til Origo frá Icelandair.

Hjá Origo hefur hún tekið við sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála auk þess að taka sæti í framkvæmdastjórn að því er Fréttablaðið greindi frá. Sylvía hefur setið í stjórn Símans hf. frá 15. mars 2018 en félagið segir í tilkynningu til kauphallar að það hafi ákveðið að fresta kjöri nýs stjórnarmanns til næsta aðalfundar þess.

Viðskiptablaðið sagði frá því í byrjun sumar 2018 þegar hún tók við sem forstöðumaður nýrrar stuðningsdeildar flugreksturs Icelandair. Tæpu ári áður var sagt frá því að hún hefði tekið við sem deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði Landsvirkjunar, en þá hafði hún starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2015.

Þar áður hafði hún starfað hjá Amazon í Evrópu, sem hún sagði frá í viðtali við Viðskiptablaðið í kjölfar ráðningarinnar til Icelandair, auk þess að hafa starfað hjá fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands og hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM). Auk stjórnarsetunnar hjá Símanum hefur hún setið stjórn Ölgerðarinnar og í starfshópi um Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið.