Sjónvarpsstöðin Sýn greiðir liðlega 60% meira á hvern áskrifanda fyrir réttinn að enska boltanum næstu þrjú keppnistímabil en breska stöðin Sky, eða liðlega 19 þúsund krónur fyrir hvern áskrifanda á ári samanborið við tæpar 12 þúsund krónur sem Sky greiðir.

Hér er miðað við að Sýn hafi greitt 1,1 milljarð fyrir réttinn (Magnús Ragnarsson sjónvarpsstjóri Skjás eins sagði í fjölmiðlum að stöðin hefði dregið sig út úr kapphlaupinu þegar tilboðin voru komin yfir milljarð) og að áskrifendur stöðvarinnar séu 19 þúsund (Ari Edwald forstjóri 365 hf. sagði við Viðskiptablaðið í gær að þeir væru "nálægt 20 þúsund"). Breska blaðið Guardian segir að Sky hafi greitt 178,5 milljarða króna (liðlega 1,3 milljarða punda) fyrir þá leiki sem stöðin keypti og að 5 milljónir áskrifenda kaupi íþróttaefni stöðvarinnar.

Ítarlega er fjallað um enska boltann og sýningarréttinn í Viðskiptablaðinu í dag.