Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,32%, upp í 1.891,66 stig, í 1,7 milljarða króna heildarviðskiptum. Í heildina hækkuðu 8 félög í kauphöllinni í dag í virði, en 7 félög lækkuðu virði, meðan 4 félög stóðu í stað.

Mest hækkun var á gengi Sýnar, eða um 5,60%, sem er nokkru minni hækkun en var um tíma í dag, þegar hún náði yfir 7%. Fór gengið upp í 25,45 krónur í 91 milljóna króna viðskiptum. Hækkunin í dag hefur eðlilega vakið athygli enda hafa bréf Sýnar verið í nær frjálsu falli á síðustu misserum.  Að sögn aðila á markaði sem Viðskiptablaðið ræddi við má helst rekja hækkunina til aukinnar eftirspurnar á eftir bréfum félagsins á sama tíma og framboð af bréfum hafi verið lítið.

Hagar hækkuðu næstmest, eða um 2,96%, í 39,95 krónur, í 133 milljóna króna viðskiptum en þar á eftir kom hækkun á bréfum Skeljungs, sem nam 0,84% í þó einungis 40 milljóna viðskiptum, en þau fóru í 7,20 krónur hvert bréf.

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Brim, eða um 1,81% í 117 milljóna viðskiptum, og fór gengi bréfanna niður í 38,0 krónur. Er það þó yfir útboðsgengi nýrra bréfa félagsins, en vegna kaupa Guðmundar Kristjánssonar forstjóra félagsins á nýju hlutunum auk kaupa á um 10% eignarhlut Fisk Seafood mun eignarhlutur hans verða yfir helmingi í félaginu þegar kaupin verða gengin eftir.

Arion banki lækkaði svo um 1,65%, niður í 71,70 krónur, í 312 milljón króna viðskiptum, sem jafnframt eru þau mestu í kauphöllinni í dag með eitt félag. Næst mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir 215 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 0,36%, upp í 550 krónur.

Origo lækkaði þriðja mest í viðskiptum dagsins, eða um 1,32%, í þó ekki nema 36 milljóna króna viðskiptum, og var lokagengi bréfa félagsins 22,35 krónur.

Breska sterlingspundið styrktist gagnvart krónunni, um 0,50% og fæst pundið nú á 160,05 krónur, en Bandaríkjadalur lækkaði um 0,43%, niður í 124,56 krónur.