*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 4. nóvember 2021 16:18

Sýn hækkar um 10% en flugfélögin lækka

Hlutabréfaverð í Sýn hækkaði um 10% í dag eftir uppgjör en flugfélögin Icelandair og Play lækkuðu mest allra.

Hlutabréfaverð í Sýn hækkaði um 10% í 443 milljóna viðskiptum í dag, mest allra félaga í Kauphöll Íslands. Sýn birti uppgjör í gær þar sem fram kom að þriðji ársfjórðungur hafi verið sá besti hjá félaginu frá árinu 2018 og boðaðar voru nýjungar í rekstrinum á borð við færsluhirðing. Þar með hafa hlutabréf í Sýn hækkað um 36% undanfarinn mánuð og 54% það sem af er þessu ári.

Síldarvinnslan hækkaði næst mest eða um 4,8% í gær og þá hækkaði Brim, hitt útgerðarfélagið á markaði, um 2,7%.

Flugfélögin Icelandair og Play lækkuðu mest allra í viðskiptum dagsins eða um 2,8% en fyrr í dag var tilkynnt um að sóttvarnarráðstafanir á landamærunum yrðu óbreyttar fram til 15 janúar. Stærsta félagið Marel kom þar á eftir og lækkaði um 2,7% í viðskiptum dagsins.

Alls hækkuðu sex af tuttugu félögum á aðallista kauphallarinnar, en tíu lækkuðu og fjögur stóðu í stað. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,61%.

Stikkorð: Marel Icelandair Play Kauphöllin Sýn