Hlutabréf Sýnar hækkuðu um 15,9% í 187 milljóna króna viðskiptum, félagið birti árshlutauppgjör eftir lokun markaða í gær. Markaðsvirði félagsins er nú tæplega sjö milljarðar króna og hefur ekki verið hærra síðan 10. júní síðastliðinn.

Sjá einnig: Heiðar kaupir fyrir 134 milljónir

Næst mest hækkuðu bréf Símans um 3,9% í mestri veltu dagsins sem nam 390 milljónum króna. Bréf Símans standa nú í 6,67 krónum hvert og hafa þau aldrei verið jafn há en félagið birti árshlutauppgjör á þriðjudag í vikunni. Þriðja mest hækkun var á bréfum VÍS um 3,3% og standa þau í 10,34 krónum.

Mest lækkun var á bréfum Regins um 0,83%. Bréf félagsins hafa lækkað um ríflega 18% síðasta mánuð og 36,9% það sem af er ári. Reitir lækkaði um 0,6% í dag en bréf félagsins hafa lækkað um tæplega 41% á þessu ári. Eik birtir árshlutuppgjör síðar í dag.

Úrvalsvísitala OMXI10 hækkaði um 0,29% í viðskiptum dagsins og stendur í 2.100 stigum. Heildarvelta nam 2,2 milljörðum króna í 172 viðskiptum.