*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 23. ágúst 2019 16:08

Sýn heldur áfram að lækka

Einungis tvö félög lækkuðu í verði í kauphöllinni í dag. Úrvalsvísitalan tók við sér og tryggingafélögin hækkuðu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hefur tekið við sér í lok vikunnar með 0,51% hækkun og fór hún í 2.027,15 stig. Heildarveltan var nokkru meiri í kauphöllinni í morgun en undanfarna daga, eða 1,9 milljarðar króna.

Einungis tvö félög lækkuðu í viðskiptum dagsins, en þar af heldur lækkun Sýnar áfram og nam hún nú 3,63% í 89 milljóna króna viðskiptum. Enduðu bréf félagsins í 27,90 krónum. Skeljungur var hitt félagið sem lækkaði í virði, eða um 0,86%, niður í 8,08 krónur en í mjög litlum viðskiptum eða fyrir 3 milljónir króna.

Mest hækkun var á gengi bréfa TM, eða um 1,61%, upp í 31,60 krónur hvert bréf, í 95 milljóna króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær skilaði félagið góðri afkomu á öðrum ársfjórðungi. Gengi bréfa þriðja tryggingafélagsins, VÍS, stóð þó í stað í 107 milljóna króna viðskiptum.

Næst mesta hækkunin var á gengi bréfa Brim, áður HB Granda, eða um 1,40% í smávægilegum viðskiptum, og fór gengi bréfanna í 36,20 krónur. Viðskiptablaðið hefur fjallað um stór viðskipti með bréf félagsins síðustu daga.

Þriðja mesta hækkunin var á gengi bréfa Sjóvá, eða um 1,20% í 329 milljóna króna viðskiptum sem jafnframt voru næst mestu viðskiptin með bréf í einu félagi. Fór gengi bréfa félagsins, sem einnig birti gott uppgjör í gær, í 16,90 krónur.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Símans, eða fyrir 780 milljónir króna, hækkaði gengi bréfa félagsins um 0,43% í viðskiptunum og fóru í 4,62 krónur.

Stikkorð: Sjóvá Síminn TM Brim Kauphöllin nasdaq Sýn