Sýn mun hefja færsluhirðingu fyrir fyrirtæki á næstu vikum og mun senn afhenda fyrstu posana.

Á uppgjörsfundi Sýnar í morgun sagði Heiðar Guðjónsson, forstjóri félagsins, að Sýn hafi undanfarið tvö ár lagt mikla áherslu á að fjárfesta í innri upplýsingakerfum og bæta reksturinn en félagið skilaði sinni bestu afkomu frá árinu 2018 á síðasta ársfjórðungi . Nú sé Sýn tilbúið að auka vöruframboðið og fyrsta skrefið í þá átt sé færsluhirðing fyrir fyrirtæki.

„Fyrstu viðbrögð við þessu eru hreint út sagt frábær, við erum að fara að afhenda fyrstu posana á næstu vikum,“ sagði Heiðar í morgun. Heiðar benti á að Sýn sé þegar í föstu mánaðarlegu reikningsambandi við um helming fyrirtækja og heimila í landinu.

Í uppgjörskynningu Sýnar kemur fram að félagið vinnur að auka framboð fyrirtækjalausna enn frekar og gert sé ráð fyrir að fyrstu viðskiptavinir komi inn í greiðslulausnir á næstu mánuðum. Hingað til hefur mest farið fyrir fjarskipta- og fjölmiðlarekstri Sýnar en félagið er móðurfélag Vodafone á Íslandi og rekur fjölmiðla á borð við Stöð 2, Bylgjuna og Vísi.

Þá sagði Heiðar að Sýn bíði enn samþykkis Samkeppniseftirlitsins á sölu óvirkra fjarskiptainnviða til félags í stýringu hjá Digital Colony . Sýn fær um 7,1 milljarð króna í sinn hlut fyrir söluna en mun leigja innviðina aftur af kaupandanum. Félagi hyggst nýta söluandvirðið til að greiða niður lán, fjárfesta og ráðast í endurkaup á eigin hlutabréfum.