„Síminn ákveður ekki á hvaða verði aðrir markaðsaðilar selja vörur okkar í smásölu,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans, aðspurður um ákvörðun Sýnar í morgun að bjóða Símann Sport á 1.000 krónur á mánuði á yfirstandandi keppnistímabili ensku úrvaldeildarinnar.

„Við seljum þessa vöru, Síminn Sport, á heildsölu til þeirra á talsvert hærra verði en 1.000 krónur. Ef aðilar vilja selja sínar vörur með tapi þá er það þeirra mál,“ segir Orri.

Hann bendir á að Sýn hefur margoft verið útnefnt markaðsráðandi aðili, bæði í áskriftarsjónvarpi og sjónvarpsdreifingu, af Samkeppniseftirlitinu og megi því ekki beita skaðlegri undirverðlagningu.

„Okkur finnst sérstakt að það sé verið að gefa neytendum falskar væntingar tímabundið og leika einhverja lagalega og markaðslega samkvæmisleiki sem gerir hinn venjulega borgara hálfruglaðan í ríminu,“ segir Orri.

Samkeppniseftirlitið úrskurðaði í lok maí um 500 milljóna króna sekt á Símann vegna verðlagningar á Enska boltanum . Orra þykir sérstakt að kvörtunin barst frá Sýn sem hefur lengi boðið sínum viðskiptavinum pakkaáskriftir, meðal annars á enska boltanum. Hann segir að meiri munur sé á verðkjörum sjónvarpspakka og stakra áskrifta hjá Sýn heldur en hjá Símanum.

Orri segir einnig að Síminn hefur boðið neytendum mun lægra verð á enska boltanum heldur en hjá þeim aðilum sem höfðu sýningarréttinn áður. Hann áætlar að um þriðjungur heimila landsins hefur aðgang að enska boltanum í dag sem er talsvert meira en á fyrri árum.