Grænt var um yfir að lítast í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Gengi 12 félaga af þeim 19 sem skráð eru á Aðalmarkað hækkaði í viðskiptum dagsins og fyrir vikið hækkaði OMXI10 úrvalsvísitalan um 0,91% og stendur í 2.785,93 stigum. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 4,6 milljörðum króna.

Gengi Sýnar hækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 4% í 137 milljóna króna veltu. Næstmest hækkaði gengi hlutabréfa VÍS, eða um 2,66% í 168 milljóna króna veltu.

Langmest velta var með hlutabréf Arion banka, en heildarvelta viðskipta dagsins með hlutabréf bankans nam tæplega 1,9 milljörðum króna og hækkaði gengi bréfa bankans um 2,07%.

Gengi hlutabréfa Iceland Seafood lækkaði mest í viðskiptum dagsin, eða um 1,56% í 58 milljóna króna veltu. Sex önnur félög þurftu að sætta sig við gengislækkanir, en þurfa þó vart að örvænta enda nam lækkunin í öllum tilfellum vel innan við 1%.