*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 8. júlí 2020 16:35

Sýn nálægt sögulegu lágmarki

Mesta velta Kauphallarinnar í dag var með bréf Sýnar sem lækkuðu um 2,7% í 112 milljóna króna viðskiptum.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,63% í 384 milljóna króna veltu Kauphallarinnar í dag. Gengi 10 af 20 félögum hallarinnar stóðu óbreytt í viðskiptum dagsins. 

Icelandair lækkaði mest allra félaga eða um 9,6% eftir að félagsmenn Flugfreyjufélag Íslands felldu nýjan kjarasamning fyrr í dag og standa nú í 1,6 krónum á hlut. Velta bréfanna nam þó einungis átta milljónum króna. 

Mesta veltan var með bréf Sýnar sem lækkuðu um 2,7% í 112 milljóna króna viðskiptum og stóðu í 23,7 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar. Bréf fjarskiptafélagsins eru nálægt sínu sögulega lægsta stigi sem var 23,45 krónur á hlut við lokun markaða þann 19. mars síðastliðinn.

Marel lækkaði um 2,1% í 29 milljóna veltu og standa bréf fyrirtækisins í 692 krónum á hlut. Arion banki lækkaði einnig um tæp 2% í 49 milljóna króna veltu en gengi bankans stendur nú í 65 krónum. 

Kvika og TM hækkuðu mest allra félaga Kauphallarinnar í dag. Kvika hækkaði um 2,14% í 38 milljóna viðskiptum og TM um 1,35% í 34 milljóna veltu. Brim hækkaði um 0,9% í 45 milljóna króna veltu í dag en bréf útgerðarfyrirtækisins hafa hækkað um 6,6% á einni viku. 

Íslenska krónan veiktist gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heims í dag. Frá 5. júní síðastliðnum hefur krónan veikst um 5,4% gagnvart evrunni og dollaranum og 5,1% gagnvart sterlingspundinu. 

Stikkorð: Nasdaq Kauphöllin