Heildarviðskipti á hlutabréfamarkaðnum námu 2,7 milljörðum króna og lækkaði Úrvalsvísitalan (OMXI10) um tæplega prósentu. Stendur hún í 2.183 stigum en hún náði sögulegu hámarki í gær.

Eins og svo oft áður voru mest viðskipti með hlutabréf Marel, fyrir um 965 milljónir króna og lækkuðu bréf félagsins um 2,02%. Þau standa nú í 728 krónum hvert og er markaðsvirði félagsins um 561 milljarður króna. Næst mest velta var með bréf Arion banka fyrir 504 milljónir króna. Bréfin hækkuðu um 0,33% og standa nú í 76,45 krónum.

Botninum náð?

Mest hækkuðu hlutabréf Sýnar um 2,97% í viðskiptum dagsins og standa nú í 29,5 krónum hvert. Á þessu ári fóru bréf félagsins lægst í 22,85 krónur þann 17. júní. Félagið birti árshlutauppgjör 26. ágúst síðastliðinn eftir lokun markaða. Þá stóðu bréfin í 23,3 krónum og hafa því hækkað um 27% síðan þá.

Næst mest hækkuðu hlutabréf Eikar um 2,31% og standa nú í 7,08 krónum hvert. Hlutabréf félagsins náðu sögulegu lágmarki 25. ágúst síðastliðinn og stóðu þá í 5,8 krónum. Félagið birti svo árshlutauppgjör þann 27. ágúst síðastliðinn og hafa hækkað um 22% síðan þá.

Mest lækkuðu hlutabréf Icelandair í viðskiptum dagsins eða um 3,23% í einungis fjögurra milljóna króna viðskiptum. Hlutabréf félagsins standa í 1,2 krónum hvert. Hlutafjárútboð félagsins mun fara fram 16.-17. september næstkomandi þar sem hver hlutur verður seldur á genginu einum.