Fulltrúar Sýnar hf. (Vodafone á Íslandi) og Háskólans í Reykjavík undirrituðu í dag samstarfssamning um ýmis þróunarverkefni í léttbandstækni IoT (e. Internet of Things). Samningurinn er til tveggja ára og veitir nemendum HR aðgang að léttbandskerfi Vodafone á Íslandi til prófunar og þróunar á léttbandslausnum.

Léttband-IoT er einfaldlega farsímastaðall sem er sérstaklega hannaður fyrir lausnir sem þurfa langa rafhlöðuendingu, kosta lítið og senda lítið magn af gögnum á hverjum degi auk þess sem sendigetan nær inn á staði þar sem hefðbundin fjarskipti komast ekki. Þannig eru t.d. LB-IoT tæki hönnuð til að lifa í 10 ár á einni hleðslu í fullri notkun.

„Léttband-IoT lausn Vodafone er mjög áhugaverð tækni fyrir Háskólann í Reykjavík í tengslum við rannsóknir, kennslu og nýsköpun. Nú þegar IoT er að ryðja sér til rúms er mjög mikilvægt að starfsfólk og nemendur HR hafi greiðan aðgang að slíkum innviðum. Starfsfólk geti unnið að rannsóknum og þróun IoT lausna óháð staðsetningu, þ.e. þurfi ekki að vera staðsett innan HR. Nemendur geti á sama hátt einbeitt sér að því að pæla í hagnýtingu IoT lausna í tengslum við nýsköpun án þess að þurfa að hugsa um innviðina eða staðsetningu. Áhugaverð þróunar- og nýsköpunarverkefni má þá auðveldlega útvíkka fyrir stærri svæði en bara Reykjavík eða Ísland ef því er að skipta,“ segir Heiðar Jón Hannesson, framkvæmdastjóri Upplýsingatæknisviðs Háskólans í Reykjavík.

Hjá Vodafone á Íslandi er ekki síður ánægja með samstarfið. „Við erum virkilega ánægð með að fá Háskólann í Reykjavík í samstarf um NB IoT tæknina sem við höfum nefnt Léttband á íslensku. Léttbandið býður upp á mjög mikla möguleika til þess að skapa fjölbreyttar IoT lausnir sem munu án efa hafa mikil jákvæð á hrif á samfélag okkar. Háskólaumhverfið er að okkar mati frábær samstarfsaðili um þessa nýju tækni og ég hlakka mikið til að sjá þær lausnir sem frumkvöðlar framtíðarinnar munu skapa með henni,“ segir Þorvarður Sveinsson framkvæmdastjóri fyrirtækja og þróunar hjá Sýn hf.