Félag í stýrimgu bandaríska framtaksfjárfestingafélagsins Digital Colony, er langt kominn með að ljúka kaupum á svokölluðum óvirkum fjarskiptainnviðum af Sýn og Nova fyrir um 13 milljarða króna samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Þá vinnur félagið að því að fjármagna kaupin að hluta með útgáfu skuldabréfs í krónum upp á 8 til 9 milljarða króna. Fjárfesting í skuldabréfunum hefur verið kynnt lífeyrissjóðum og öðrum innlendum fjárfestum á síðustu vikum af fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka sem hefur umsjón með fjármögnuninni hér á landi.

Sýn og Nova munu leigja innviðina aftur af kaupandanum. Sýn sagði fyrst frá viðræðunum með tilkynningu í október þar sem fram kom að um 6 milljarða króna söluhagnaður myndist við söluna en hefur ekki gefið upp hver kaupandinn sé.

Gangi kaupin eftir má vænta þess að innviðirnir verði endanlega í eigu sjóðs í stýringu hjá Digital Colony, sem sérhæfir sig í stýringu fjárfestinga á ýmsum stafrænum innviðum á borð við gagnaverum, fjarskiptamöstrum, ljósleiðarakerfum og öðrum sambærilegum eignum. Digital Colony er með eignir í stýringu sem samsvara um 2.800 milljörðum króna og er hluti af samstæðu Colony Capital sem bandaríski auðmaðurinn Thomas J. Barrack Jr. stofnaði og stýrir enn.

Barrack er bæði náinn vinur og stuðningsmaður Donald Trump en þeir hafa átt í viðskiptum í meira en þrjá áratugi. Barrack var meðal annars formaður nefndar um embættistöku Trump, tók þátt í fjáröflun fyrir kosningabaráttu forsetans og starfaði sem óformlegur ráðgjafi í forsetatíð hans. Barrack hefur vakið athygli fyrir ýmiskonar fjárfestingar í gegnum tíðina, meðal annars að taka yfir eignarhald á Neverland-búgarði Michaels Jackson árið 2008 og kaup Colony Capital á franska knattspyrnuliðinu PSG sem seldi það síðar til katarsks ríkisfjárfestingafélags.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .