*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 23. nóvember 2021 16:48

Sýn rauk upp eftir sam­þykki SKE

Þrjú fyrirtæki hækkuðu á hlutabréfamarkaðnum í dag, Sýn, Kvika og Reitir á rauðum degi.

Ritstjórn
Sýn hefur hækkað um 26,54% á einum mánuði.
Haraldur Guðjónsson

Fjarskiptafélagið Sýn var hástökkvarinn í Kauphöllinni í dag en hlutabréfaverð félagsins hækkaði um 7,9% í nærri 200 milljóna veltu í dag. Gengi Sýnar stendur nú í 61,5 krónum eftir að hafa hækkað um 26,54% á einum mánuði og hefur nú ekki verið hærra síðan í október 2018.

SKE samþykkti í dag sölu Sýnar á óvirkum farsímainnviðum félagsins til bandaríska fjárfestingafyrirtækisins Digital Bridge Group. Í tilkynningu Sýnar kom fram að um 6 milljarða króna söluhagnaður myndi myndast við söluna.

Á hinum enda rófsins var Brim en gengi sjávarútvegsfyrirtækisins lækkaði um 3,07%, í ríflega 844 milljón króna veltu í dag. Jafnframt lækkaði gengi Iceland Seafood um 2,56% og gengi Haga lækkaði um 2,24%. Einungis þrjú fyrirtæki hækkuðu á hlutabréfamarkaðnum í dag, Sýn, Kvika og Reitir.

Mesta veltan var í viðskiptum með hlutabréf í Kviku eða um 2 milljarðar króna. Næst mesta veltan var í viðskiptum með hlutabréf í Arion eða um 1,9 milljarðar króna.

Heildarvelta á aðalmarkaði nam rétt tæplega 8 milljörðum í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,58% og stóð lokagildi hennar í 3.332,71.