*

föstudagur, 21. janúar 2022
Innlent 29. nóvember 2021 16:36

Sýn á skriði

Gengi hlutabréfa fjarskiptafélagsins Sýnar hefur hækkað um meira en helming á undanförnum tveim mánuðum.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.
Haraldur Guðjónsson

Fjarskiptafélagið Sýn var hástökkvari dagsins á hlutabréfamarkaðnum, en gengi hlutabréfa félagsins hækkaði um 4% í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni.

Fast á hæla Sýn fylgdi Icelandair, en gengi hlutabréfa flugfélagsins hækkaði um 2,48%. Jafnframt var mesta veltan með bréfum í Icelandair, tæplega 600 milljónir króna. Næst mesta veltan var með bréfum í Eimskip upp á ríflega 450 milljónir króna, en gengi hlutabréfa sjávarútvegsfyrirtækisins hækkaði um 1,24% í viðskiptum dagsins. Arion fylgdi eftir með þriðju mestu veltuna upp á rúmlega 430 milljónir króna.

Iceland Seafood hækkaði um ríflega 2 prósentustig í dag og Marel um 1,72%. Brim hækkaði auk þess um 1,32% í óverulegum viðskiptum upp á 8 milljónir króna. 

Tryggingafélögin Sjóvá og VÍS lækkuðu mest allra félaga í Kauphöllinni í dag. Sjóvá lækkaði um 1,64% og VÍS um 1,51%. Allir bankar á markaði, Arion, Íslandsbanki og Kvika banki, lækkuðu lítillega í viðskiptum dagsins. Play lækkaði um tæplega 3% í viðskiptum dagsins á First North markaðnum.

Heildarvelta á aðalmarkaði nam 3,7 milljörðum króna í dag. Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,8% og stóð lokagildi hennar í 3.249,97.