*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 26. febrúar 2020 18:58

Sýn tapaði 2,1 milljarði á 4. ársfjórðungi

Niðurfærsla viðskiptavildar um 2,5 milljarða þurrkaði út 350 milljóna króna hagnað Sýnar. Tapið 1,7 milljarðar á árinu.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar.
Eva Björk Ægisdóttir

Neikvæður viðsnúningur varð á rekstri Sýnar á fjórða ársfjórðungi en félagið tapaði 2,1 milljarði króna á tímabilinu nú miðað við 193 milljóna króna hagnað á sama tíma í fyrra. Sama á við um árið 2019 í heild þar sem félagið tapaði ríflega 1,7 milljarði króna á móti 443 milljóna króna hagnaði árið áður.

Félagið segir skýringu taps fjórða ársfjórðungs vera að það hafi fært niður viðskiptavild að andvirði 2.452 milljóna króna en án þess hefði verið 351 milljóna króna hagnaður á tímabilinu.

Tekjur félagsins á fjórða ársfjórðungi drógust saman um 9%, og námu ríflega 4,9 milljörðum króna, meðan tekjur ársins í heild lækkuðu um 5%, eða 943 milljónum milli ára, og námu þær 19,8 milljörðum króna.

Lækkun rekstrarkostnaðar nærri 17%

Rekstrarkostnaður félagsins lækkaði milli ára á fjórða ársfjórðungi um 16,6%, úr ríflega 5,1 milljarði í heildina 4,7 milljarða króna, en fyrir árið í heild nam lækkunin um 3,2%, úr tæplega 19,6 milljörðum króna í rétt rúmlega 19,3 milljarða króna.

EBITDA félagsins nam 1.409 milljónum króna á 4. árfjórðungi í samanburði við 1.449 milljónir króna á sama tímabili árið áður. EBITDA hlutfallið er 28,6% á 4. ársfjórðungi 2019 samanborið við 26,7% á sama tíma 2018. Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1.953 milljónum króna samanborið við 1.358 milljónir króna á sama tímabili árið áður, sem er aukning um 44%.

Fjármögnunarhreyfingar félagsins á árinu voru neikvæðar um 380 milljónir króna á móti jákvæðum hreyfingum upp á 434 milljónum króna á árinu 2018 sem er breyting um 814
milljónir króna.

Eigið fé félagsins lækkaði um 17,8% á árinu 2019, úr 10,7 milljörðum króna í 8,8 milljarða, meðan skuldirnar jukust um 42,2%, úr 16,3 milljörðum króna í 23,2 milljarða. Þar með jukust eignirnar um 18,4% yfir árið, úr 27 milljörðum króna í tæplega 32 milljarða, og fór því eiginfjárhlutfallið úr 39,6% í 27,5% í lok árs 2019.

Ætti ekki að koma á óvart

Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar segir niðurstöðu rekstrar síðasta árs vera í takti við horfur og ekki ætti margt að koma þar á óvart.

„Árið markast af því að verið var að framkvæma miklar breytingar á rekstrinum og færa niður viðskiptavild. Jákvæð breyting er verulega bætt sjóðstreymi en frjálst fjárflæði eykst um yfir milljarð króna,“ segir Heiðar.

„Á síðasta ári fór fyrirtækið fyrst í sameiginlega stefnumótun. Í framhaldi af því var skipuriti breytt og nýir framkvæmdastjórar eru nú í öllum stöðum, utan tæknisviðs. Tæknisviði var skipt upp og sett að hluta undir rekstrarsvið, sem mun auk skilvirkni og hraða framförum í starfrænni aðlögun. Við innleiddum nýja vörumerkja– og samskiptastefnu og fórum í framhaldi af því í 4DX átaksverkefni. Ánægja viðskiptavina jókst strax umtalsvert í kjölfarið. Nú erum við í stöðu til að sækja fram.

Lykill að betri rekstrarárangri er að umbreyta föstum kostnaði í breytilegan. Þar eru ýmis verkefni í gangi. Við erum að auka útvistun verkefna auk þess sem við erum enn að hagræða með því að efla frekari samvinnu á milli deilda fyrirtækisins. Varðandi framtíð fjarskipta þá skiptir mestu að fjárfestingar séu markvissar með tilliti til öryggis og hagkvæmni. Mikilvægur liður í því var yfirlýsing fjarskiptafyrirtækjanna frá 19. desember síðast liðnum, þó enn sé of snemmt að fullyrða um árangur af því starfi.

Horfur ársins 2020 eru ágætar. Við vitum að í óbreyttum rekstri munum við sýna bata í sjóðstreymi. Ofan á það kemur enn straumlínulagaðri rekstur og hugsanlegt hagræði af samstarfi í uppbyggingu 5G og tengdra verkefna sem gerir það að verkum að erfitt er styðjast við sama form á horfum og áður hefur verið. Eldra form á horfum nær ekki utan um þær breytingar sem við ætlum að gera á rekstrinum.“