*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 13. maí 2020 17:01

Sýn tapar 350 milljónum

Heiðar: „Það var ekki inn í okkar svartsýnustu sviðsmynd að hagkerfið myndi meira og minna loka“. Tekjurnar stóðu í stað.

Ritstjórn
Heiðar Guðjónsson er forstjóri Sýnar.
Eva Björk Ægisdóttir

Tekjur Sýnar stóðu í stað milli ára á 1. ársfjórðungi, í rétt tæplega 5 milljörðum króna, en heildarútgjöldin jukust um 2,6%, úr tæplega 4,9 milljörðum í rétt rúmlega 5 milljarða. Félagið tapaði 350 milljónum króna á ársfjórðungnum en það hafði hagnast um 670 milljónir á sama tíma fyrir ári, en inn í hagnaðinum þá var 817 milljóna króna söluhagnaður af færeyska dótturfélaginu Hey.

Inn í tekjunum nú komu 371 milljóna króna tekjur af Endor ehf. í fyrsta skipti inn í samstæðuárshlutareikning félagsins. Rekstrarkostnaður félagsins dróst saman um 8,6% milli ára, úr 1.822 milljónum í 1.666 milljónir, en kostnaðarverð seldra vara og þjónustu jókst um 9,2%, úr tæplega 3,1 milljarði í tæplega 3,4 milljarða.

Keyptu sýningarrétti fyrir nærri hálfan milljarð

Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1.053 milljónum króna samanborið við 819 milljónir króna á sama tímabili árið áður, sem er aukning um 29%.

Heildarfjárfestingar félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins námu 738 milljónum króna þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 263 milljónir króna og fjárfesting í sýningarréttum 475 milljónir króna.

Fjármögnunarhreyfingar á fyrstu þremur mánuðum ársins voru neikvæðar á tímabilinu um 590 milljónir króna á móti 5 milljónum króna á sama tímabili árið 2019 sem er breyting um 585 milljónir króna.

Eigið fé félagsins dróst saman um 4% milli ára, úr tæplega 8,8 milljörðum í ríflega 8,4 milljarða, meðan skuldirnar drógust saman um 0,4%, úr tæplega 23,2 milljörðum í 23,1 milljarða. Þar með drógust eignir félagsins saman um 1,4%, úr tæplega 32 milljörðum í 31,5 milljarða, og eiginfjárhlutfallið lækkaði því úr 27,5% í 26,8%.

Heiðar Guðjónsson forstjóri segir félagið reyna að vera varkárt í sínum spám.

„[E]n það var ekki inn í okkar svartsýnustu sviðsmynd að hagkerfið myndi meira og minna loka. Við náum samt að sýna aukningu í EBITDA, eins og við höfðum stefnt að. Það helgast mest af því að við erum að ná að gera fyrirtækið sveigjanlegra. Störfum hefur fækkað frá síðasta ári um rúmlega 100 og deildir fyrirtækisins vinna hagkvæmar,“ segir Heiðar.

„Vegna ástandsins þurftum við að loka verslunum, hætta vettvangsþjónustu og auglýsingatekjur lækkuðu mikið. Gagnaverið á Korputorgi hefur verið tekið í notkun en vegna COVID-19 hefur yfirfærsla gagna tafist, en er núna í gangi. Áfram er unnið að því að hagræða í kringum uppbyggingu á 5G og á skyldum innviðum. Við vonumst eftir að geta kynnt útfærslu á næstu 3 mánuðum og teljum að fjarskiptafélögin hafi þar sömu hagsmuni og almenningur. Frjálst sjóðstreymi eykst um yfir 500 milljónir á milli ára. Við leggjum sérstaka áherslu á að bæta sjóðstreymi rekstrarins.“

Stikkorð: Heiðar Guðjónsson Endor Sýn Hey