Fjarskipta- og fjölmiðlunarfyrirtækið Sýn tapaði 4 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs sem er 102% lækkun milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi fyritækisins.

Í desember á síðasta ári keypti félagið tilteknar eignir og rekstur 365 miðla og gætir áhrifa frá því í samanburði milli ára.

Tekjur á öðrum ársfjórðungi 2018 námu 5.444 milljónum króna sem er hækkun um 61% á milli ára. Tekjur á fyrsta árshelmingi jukust um 4.221 milljón króna eða 65%.

EBITDA hagnaður nam 718 milljónum króna. á ársfjórðungnum sem er lækkun um 43 milljónum króna milli ára. EBITDA hagnaður á fyrri helmingi ársins nam 1.436 milljónum króna sem er 3% lækkun milli ára.

Aðlagaður EBITDA hagnaður á 2F að teknu tilliti til einskiptisliða nam 748 milljónum króna sem er 3% lækkun milli ára. Aðlagaður EBITDA hagnaður á fyrri helmingi ársins nam 1.581 milljónum sem er 4% aukning milli ára. Tap á hlut var 0,01 á 2F en hagnaður á hlut á fyrri árshelmingi var 0,19

Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu 854 m.kr. á fjórðungnum sem er 59% hækkun á milli ára og má rekja til stórra samlegðarverkefna. Fyrirliggjandi EBITDA horfur fyrir árið 2018 eru á bilinu 4.000-4.400 m.kr. af reglulegri starfsemi. Núverandi áætlanir félagsins eru við neðri mörk þess bils.  Einskiptisliðir á fyrri helmingi ársins eru 145 m.kr. en búist er við óverulegum einskiptisliðum í tengslum við kaupin á síðari hluta ársins. Markmið um fjárfestingarhlutfall stendur í 8-10% af tekjum. Í ljósi framþungra fjárfestinga á árinu er ljóst að félagið verður við efri mörk fjárfestingahlutfalls vegna samrunaverkefna.

„Annar fjórðungur var mjög stór samþættingafjórðungur þar sem mikilvægum áföngum var náð eins og til dæmis tilfærsla allra farsímaviðskiptavina 365 yfir á kerfi Sýnar með útskiptingu sim korta án áfalla, sameiningu fjölmargra deilda og þjónustukerfa og flutningi útvarps og dagskrárgerðar úr Skaftahlíð svo fátt eitt sé nefnt. 70% af starfsmönnum keyptra eininga starfa nú á Suðurlandsbraut. Þetta þýðir að mikilvæg samrunaverkefni eru í höfn og því er búist við að kostnaður taki frá þriðja fjórðungi að lækka hratt. Við búumst þar af leiðandi við mun sterkari fjórðungum seinni hluta árs þar sem bæði kostnaður lækkar auk þess sem tekjur fjórðunga seinni hluta árs eru sterkar vegna árstíðasveiflu, fjarskiptin sterk á þriðja fjórðungi og fjölmiðlunin á fjórða fjórðungi.

EBITDA fjórðungsins er undir því sem við höfðum vænst einkum vegna kostnaðarsamra samrunaverkefna. Rekstrarkostnaður á öðrum fjórðungi er því hærri en , ekki einungis vegna einskiptisliða, heldur einnig vegna kostnaðar sem tengist umfangsmiklum samrunaverkefnum sem endurspeglast í mikilli yfirvinnu, tvöfaldra kerfa í rekstri, tvöfaldri húsaleigu, auk takmarkaðs möguleika fyrirtækisins að bregðast við háum almennum launahækkunum í miðju samrunaferli. Vanmat á kostnaði við samrunann er aðalástæða  lægri EBITDA en vonast var eftir á öðrum fjórðungi. Framkvæmd samlegðarverkefna er hinsvegar á áætlun og mun skila sér í mun betri rekstri frá þriðja fjórðungi. Meiri kostnaður á fyrri hluta árs en búist var við gerir að verkum að félagið verður við neðri mörk áður útgefinna horfa fyrir árið 2018. Útgefnar horfur fyrir EBITDA árin 2019 og 2020 standa óbreyttar.

Tekjur og viðskiptavinafjöldi eru í samræmi við upprunalegar áætlanir sem er mjög mikilvægur áfangi samrunans í ljósi flókinna tilfærslna milli kerfa í tengslum við samþættingu. Félagið hefur auk þess aðlagað vörur sínar eftir sameiningu og til dæmis styrkt samkeppnishæfni sjónvarpspakka með lækkun verðs auk þess að tryggja sér mikilvæga efnisrétti eins og UEFA og ítalska boltann nú nýverið.

Við gleðjumst yfir því að stærsti og áhættusamasti kafli samrunans sé að baki og horfum fram á  bjarta tíma með lækkun kostnaðar og jákvæðri EBITDA þróun á næstu fjórðungum í samræmi við markmið samrunans. Starfsfólk fyrirtækisins hefur staðið sig frábærlega og á þakkir skilið fyrir fórnfúst starf við að byggja grunninn að leiðandi sameinuðu fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtæki,“ segir Stefán Sigurðsson forstjóri Sýnar.