Fjölmiðla og fjarskiptafélagið Sýn hefur lækkað horfur fyrir árið 2019. Segir félagið nýjar upplýsingar gefa til kynna að EBITDA framlegð ársins verði um 6% undir þeirri spá sem áður hafði verið gefin út, sem var EBITDA á milli 6,0-6,5 milljarða á árinu, en er nú um 5,6 milljarða króna.

Segir félagið að unnið hafi verið að nýju spáferli eftir breytingar á framkvæmdastjórn sem áttu sér stað á fyrri helmingi ársins. Niðurstaða þeirrar vinnu sé að fyrri horfur hafi verið of bjartsýnar.

Tekjur í fjölmiðlum og í fjarskiptum voru ofáætlaðar um tæpar 400 milljónir og kostnaður við útsendingar miðla vanáætlaður um 160 milljónir króna. Fyrri áætlun um frjálst sjóðsflæði er óbreytt en ljóst sé að félagið er að enda í neðri enda þess bils, 1,6-2,0 milljarða króna.

Framkvæmdastjórnu hefur jafnframt breytt uppgjörum deilda til að skerpa á innri ferlum sem félagið vonast eftir að skili sér í áreiðanlegri spám héðan í frá. Sömuleiðis hafi aðgerðir sem gripið var til í rekstrinum í sumar lækkað kostnaðarstig fyrirtækisins umtalsvert til framtíðar.

Gengi hlutabréfa félagsins hafa þegar þetta er skrifað lækkað um 4,5% eftir að tilkynningin var birt, og sjálfvirkir sveifluverðir (e. volatility guards) Kauphallarinnar – sem stöðva tímabundið viðskipti með bréf ef verðið sveiflast of hratt, og halda þess í stað uppboð – virkjast vegna viðskipta með bréfin.

Sýn hf. mun birta uppgjör fyrri hluta ársins 28. ágúst og kynning á uppgjöri fer fram í höfuðstöðvum félagsins klukkan 8.30 þann 29. ágúst.