Sýn hf., sem keypti fjölmiðlana Stöð 2, Bylguna og Vísi, af 365 hf. hyggst kæra félagið, hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörgu Pálmadóttur sem er eigandi 365 hf., auk Torgs ehf., sem heldur utan um núverandi rekstur Fréttablaðsins.

Rúv geindi fyrst frá upp úr ársreikningi félagsins en þar kemur fram að Sýn hafi í bréfi frá 17. des síðastliðnum gert kröfu á aðilana vegna meintra brota á samkeppnisákvæðum í kaupsamningi félaganna frá 14. mars 2017.

„Í bréfinu er lýst þeirri skoðun að tilteknir þættir í starfsemi vefmiðilsins frettabladid.is samrýmist ekki þeim skuldbindingum sem fram komi í þeim samningi. Þá er vísað til þess að umrædd ákvæði feli í sér rétt Sýnar hf. til að krefjast févítis/dagsekta að fjárhæð 5 millj. kr. á dag að viðbættum verðbótum. Á þeim grundvelli er svo gerð krafa um greiðslu á 1.140 millj. kr. auk verðbóta,“ segir í ársreikningi Sýnar.

„Af hálfu Ingibjargar, Jóns Ásgeirs og 365 hf. var kröfunni mótmælt með bréfi 20. des. 2019. Sýn hf. hefur falið lögmanni að undirbúa höfðun dómsmáls til heimtu þessarar kröfu og má búast við því að það verði höfðað á næstu vikum.“