Vestmannaeyjabær fagnar því að látið verða reyna á rétt sveitarfélagsins og almennra íbúa sjávarbyggða fyrir hæstarétti, í ljósi þess að máli Vestmannaeyjabæjar gegn Síldarvinnslunni hefur verið áfrýjað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

Vestmannaeyjabær höfðaði mál gegn Síldarvinnslunni vegna forkaupsréttar sveitarfélagsins þegar bátar og aflaheimildir voru seldar frá Vestmannaeyjum 30. ágúst 2012. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að með sölu á Bergi-Hugin til Síldarvinnslunnar hefði forkaupsréttur sveitarfélagsins verið sniðgenginn. Dómurinn ógilti kaupin en nú hefur Síldarvinnslan áfrýjað dómnum.

Í tilkynningunni frá Vestmannaeyjabæ segir:

Vestmannaeyjabær sýnir því fullan skilning að Síldarvinnslan hafi ákveðið að áfrýja, „enda brýnt fyrir alla aðila að leikreglur í sjávarútvegi séu skýrar og þar með að öllum sé ljóst hvort að sá réttur íbúa sem Vestmannaeyjabær berst fyrir og löggjafinn ætlaði þeim eigi að vera virtur,“ segir í tilkynningunni.

Sveitarfélagið hvetur jafnframt þingmenn og íbúa sjávarbyggða til að veita málinu athygli, vegna þess að niðurstaða muni ráða miklu um framtíð sjávarbyggða.