Eftir afar góðar viðtökur á FlyOver Iceland sýningunni á Íslandi, að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu, en hún opnaði í lok ágúst 2019, hefur myndin verið tekin til reglulegrar sýningar í FlyOver Canada sem staðsett er í Vancouver. Það er þó ekki í fyrsta sinn sem sýningin íslenska hefur verið sýnd þar, en hún var einnig í takmarkaðann tíma sýnd þar þegar opnaði hér á landi í haust.

Árlega heimsækja um 10 milljónir erlendra gesta Vancouver en FlyOver Canada sýningin er einnig afar vinsæl meðal heimamanna. Það má því telja að þetta geti orðið frábær landkynning fyrir Ísland.

Vörumerkið FlyOver er í sókn um þessar mundir, og er meðal annars stefnt á opnun FlyOver sýningar í Las Vegas, auk þess sem önnur FlyOver Canada sýning er í burðarliðnum í Toronto. Ísland er fyrsta landið utan Norður-Ameríku þar sem FlyOver hefur verið komið á fót.

„Við erum þess fullviss að FlyOver Iceland myndin fái jafn frábærar viðtökur í Kanada og hún hefur fengið hér heima“ segir Helga María Albertsdóttir, aðstoðar framkvæmdastjóri FlyOver Iceland. „Við gætum ekki verið stoltari af sýningunni okkar og hvernig hún gerir okkar stórfenglega landslagi skil.“

Fyrsta Flyover fyrirtækið opnaði í Vancouver í Bresku Kólumbíu í Kanada árið 2013, en þar eru um 61 áhorfandi á hverri sýningu, en í íslensku sýningunni eru þeir um 40. Síðan sú fyrsta opnaði hefur fyrirtækið opnað í Mall of America í borginni Bloomington í Minnesota í Bandaríkjunum og hér á landi síðasta haust.