Bandarísku framtakssjóðirnir Blackstone Group LP og Carlyle Group LP íhuga nú að færa evrópsku höfuðstöðvar sínar frá London til Lúxemborgar. Þetta kemur fram á fréttaveitu Bloomberg, en fjármálafyrirtæki í Lundunum hafa miklar áhyggjur af útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Fyrirtækin eru nú þegar með starfsemi í Lúxemborg og því munu flutningarnir líklegast ekki einkennast af miklum fólksflutningum. Í raun er frekar verið að ræða um flutninga á pappír, til þess að tryggja að hægt verði að stunda viðskipti innan Evrópu án óþarfa hindrana.

Pierre Gramegna, fjármálaráðherra landsins, sagði í nýlegu viðtali að tryggingar- , eignastýringar- og fjármálatæknifyrirtæki væru að sýna landinu mikinn áhuga.

Smáþjóðin hefur um langa tíð lagt mikið upp úr því að skapa traust og rekstrarvænt umhverfi fyrir fyrirtæki í fjármálageiranum. Nú þegar bankaleyndin er horfin, hefur landið þó reynt að skapa sér aukna sérstöðu á sviði tækni og vísinda.