Slitastjórn VBS hefur hafnað allri veðtöku Seðlabanka Íslands í eignum búsins á grundvelli þess að Seðlabankinnvissi vel að VBS var ógjaldfær á þeim tíma sem hann tryggði sér veð í eignunum.

Þá telur slitastjórnin að 26,4 milljarða króna lán ríkissjóðs Íslands til VBS í mars 2009, sem VBS notaði til að lifa fram í marsbyrjun 2010, hafi verið sýndargerningur. Seðlabankinn og íslenska ríkið hafi vísvitandi dregið að setja VBS í þrot til að sölsa undir sig veð í nánast öllum eignum hans á kostnað annarra kröfuhafa.

Veðsetningar á ýmsum kröfum til Seðlabankans eftir 1. desember 2008 voru „ótilhlýðilegar ráðstafanir til hagsbóta fyrir Seðlabankann og ríkissjóð og til röskunar á jafnræði kröfuhafa bankans og því riftanlegar“.

Selt fram og tilbaka

Þetta kemur fram í afstöðubréfi sem slitastjórnin sendi Seðlabanka Íslands 16. júní. Samtals nema lýstar kröfur Seðlabankans á hendur VBS 29,8 milljörðum króna. Þær eru tilkomnar vegna 26,4 milljarða króna láns íslenska ríkisins til VBS í mars 2009. Það lán var veitt til að endurfjármagna veðlán sem VBS hafði stofnað til við Seðlabankann og búið var að framselja til ríkissjóðs.

Þessi háttur, að framselja kröfuna fram og til baka, var hafður á vegna þess að Seðlabankanum var óheimilt að veita VBS eiginfjárfyrirgreiðslu. Það gat ríkissjóður hins vegar gert. Þegar búið var að klára lánveitinguna framseldi ríkissjóður síðan kröfuna aftur til Seðlabankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.