*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 15. nóvember 2019 15:55

Sýndarmennskustjórnmál um Samherja

Brynjar Níelsson segir viðbrögð Samfylkinguna við Samherjamálinu vera sýndarmennskustjórnmál.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

„Þáttur Kveiks, þar sem fram komu ásakanir um alvarleg brot Samherja, kveikti eðlilega upp neikvæðar tilfinningar landsmanna. Þegar slíkt gerist hoppar Samfylkingin strax á vagn sýndarmennskunnar og slær í hvert sinn eigið met.“

Þannig hefst pistill Brynjars Níelssonar sem hann birtir á Facebook-síðu sinni í dag og eins og inngangurinn gefur tilkynna er umfjöllunarefnið viðbrögð þingmanna Samfylkingarinnar við Samherjamálinu. 

„Auðvitað kom breytingatillaga við fjárlögin frá Samfylkingunni um aukið fé til skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara án þess að nokkur krafa hafi komið frá embættunum auk þess sem auknu fé hefur verið varið til rannsókna á peningaþvætti og skattsvikum. Síðan kom krafa um kyrrsetningu allra eigna Samherja án þess að lagaskilyrði væru fyrir því auk þess að það myndi valda félaginu, hundruðum fjölskyldna og þjóðinni allri verulegu tjóni. Reynt var að blanda saman við þetta mál fiskveiðistjórnunarkerfinu og gráa lista FATF í pólitískum tilgangi. Kæmi ekki á óvart að Samfylkingin gæti skráð sýndarmennskuna í þessu máli í heimsmetabók Guinness.“

Brynjar bendir á að stofnanir rannsaki mál og ákæri og dæmi eftir atvikum. „Mikilvægt er að þessar stofnanir fái að vinna sitt verk án upphrópana og sýndarmennsku stjórnmálamanna og lærum af reynslunni í þeim efnum. Orðræða sumra stjórnmálamanna í umræðunni er í mínum huga ekkert annað en aðför að réttarríkinu og með góðum rökum má kalla það pólitíska spillingu,“ skrifar Brynjar og bætir við að hann sé alltaf jafn undrandi á að kjörnir fulltrúar leggi sérstaka áherslu í málflutningi sínum að sverta Ísland um allan heim. 

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, svarar Brynjari í athugasemd við færsluna, en Helga Vala kallaði á miðvikudaginn eftir því að eigur Samherja yrðu tafarlaust frystar á Facebook-síðu sinni. „Í mínum huga kemur ekkert annað til greina en að eignir Samherja verði frystar núna strax á meðan á rannsókn stendur. Um er að ræða rannsókn á mögulegu mútubroti, peningaþvætti og skattalagabrotum. Hér er ekki um einhverja sjoppu að ræða heldur milljarðafyrirtæki með umtalsverð umsvif í fjölda ríkja og skattaskjólssvæðum.“

Í athugasemd sinnir skrifaði Helga: „Kannast ekki við að fram hafi komið krafa um að frysta allar eignir. Aðmin sta [sic] kosti ekki hjá Samfylkingunni. Við ræddum þetta í gær í útvarpinu Brynjar. Veit þú varst hálf sofandi, enda þátturinn fyrir hádegi, svo ég ætla að rifja upp umræðuna. Við kyrrsetningu eigna, er hægt að kyrrsetja hluta eigna (eins og þú löglærður maður ættir að vita). Það verður að gæta meðalhófs við beitingu slíkra þvingunarúrræða eina og annarra og gæta þess að valda ekki tjóni heldur tryggja hagsmuni (tryggja áframhaldandi rekstur). Þannig er td hægt að kyrrsetja ákveðna tiltekna en verðmæta eign, hús, skip, eitthvað sem þá er kyrrsett með því að þinglýsa kyrrsetningu á eignina til að tryggja að hún verði ekki seld á meðan á rannsókn stendur,“ skrifar Helga Vala við færslu Brynjars Níelssonar, sem svarar Helgu í athugasemd við athugasemd hennar. 

„Þú talaðir um að frysta eignir Samherja, Helga Vala. Minnist þess ekki að þú hafir undanskilið einhverjar eignir í umræðunni.“