365 mun hækka lítillega í verði næstu tólf mánuðina, en lagður var grunnur að talsverðum viðsnúningi á rekstrinum með sölunni á Hands Holding, endurfjármögnun og margvíslegri hagræðingu. Þetta kemur fram í nýrri fyrirtækjagreiningu frá Greiningu Landsbankans. Markgengi 365 að ári liðnu er talið vera 3,52 krónur á hlut, en við lok markaða í gær stóðu bréf félagsins í 3,32 krónum og höfðu þá lækkað um 0,6% frá opnun markaða.

Landsbankinn verðmetur bréf 365 á 3,02 krónur á hlut, og telur sýnilegan árangur nauðsynlegan svo fjárfestar öðlist endurnýjaða trú á fjölmiðlafyrirtækinu. Landsbankinn mælir með því við fjárfesta að undirvoga bréf félagsins í vel dreifðu eignarsafni sem tekur mið af innlendum hlutabréfamarkaði. Markaðsvirði 365 miðað við núverandi gengi nemur nú um 11,5 milljörðum króna.

Hands Holding, sá hluti Kögunar sem 365 fékk í sinn hlut þegar Dagsbrún var brotin upp, var selt á ríflega 1,5 milljarða króna. Ásamt sölunni á Hands Holding mun endurskipulagning fyrirtæksins spara því talsverðan vaxtakostnað og grynnka á skuldum. 365 seldi 17% hlut sinn í prentsmiðjunni Wyndeham, en aðeins 250 milljónir af söluandvirði hlutarins, 1,2 milljörðum, hafa verið greiddar. Í greiningu Landsbankans er gengið út frá því að 365 fái greitt að greitt að fullu fyrir áðurnefndan hlut, auk þess sem eftirstandandi 19% hlutur verði einnig seldur. Að sögn sérfræðinga Landsbankans vegur Wyndeham nokkuð þungt í slöku heildarmati á 365 enda reynst þungur baggi í rekstri síðan Dagsbrún keypti prentsmiðjuna í mars á síðasta ári.

Afskráning í aðsigi?

Bréf 365 hafa nú lækkað um ríflega 38% síðastliðið ár, og nokkuð þrálátur orðrómur um afskráningu félagsins af hlutabréfamarkaði hefur verið uppi um nokkurt skeið. Þó yrði yfirtaka á félaginu flókin í ljósi sérstakra laga um eignarhald fjölmiðla, og þyrftu fleiri en tveir ótengdir aðilar að bindast samtökum um yfirtöku ef til slíks kæmi. Stærsti hluthafi 365 er Baugur Group með rúmlega 26% hlut, og LI-Hedge, sem sér um framvirka samninga viðskiptavina sinna, ræður yfir rúmlega 14% hlutafjár. Aðrir stórir hluthafar eru Fons eignarhaldsfélag, Runnur ehf, félag tengt Magnúsi Ármanni og Sigurði Bollasyni og Milestone, fjárfestingafélag Steingríms og Karls Wernerssona