Samanlagður fjöldi gesta á leiksýningar leikhúsa, atvinnuleikhópa og áhugaleikfélaga innanlands var 375 þúsund á síðasta leikári, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands .

Þetta jafngildir því að hver landsmaður hafi farið einu sinni í leikhús á leikárinu. Sýningargestum fækkaði um 22 þúsund frá fyrra leikári. Aðsókn að leiksýningum síðast liðin fimm leikár og næstu fimm leikár á undan var nánast sú sama, eða 395 þúsund gestir að jafnaði á leikárunum 2009/2010-2013/2014 á móti 397 þúsund gestum leikárin 2004/2005-2008/2009.

Aðsóknarhæsta uppfærsla síðasta leikárs á vegum leikhúsa var söngleikurinn Mary Poppins með ríflega 40 þúsund gesti á vegum Leikfélags Reykjavíkur/Borgarleikhússins.