Sýningin Ferðalög og frístundir verður haldin í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal dagana 8.-10. maí nk. Þar mun sameinast á einum stað allt sem viðkemur ferðalögum, frístundum og afþreyingu, innanlands og utan að því er segir í tilkynningu.

Sýningin Golf 2009 verður haldin samhliða Ferðalögum og frístundum – og kjarninn í ferðasýningunni verður Ferðatorgið, þar sem ferðamálasamtök landsins kynna hvert sinn landshluta og ferðaþjónustu á sínu svæði. Fjölmörg sóknarfæri eru í ferðaþjónustu og frístundum og gefst hér einstakt tækifæri fyrir fagaðila jafnt sem almenning að kynna sér þá möguleika sem í boði eru.

Markmið sýningarinnar er að kynna fjölbreytileika ferðaþjónustu og frístundamöguleika og vekja athygli á þeim öflugu fyrirtækjum og stofnunum sem koma að ferða- og afþreyingarmálum. Á sýningunni verða kynntir  þeir fjölbreyttu möguleikar sem í boði eru og bent á nýjar og spennandi leiðir til að upplifa og kynnast landinu; auk þess sem framboð á ferðum til útlanda verður kynnt. Ennfremur verða kynntir möguleikar golfíþróttarinnar hérlendis sem erlendis í tengslum við ferðalög, og fjölbreytt framboð frístunda-, afþreyingar- og íþróttastarfs  fyrir börn, unglinga og fullorðna.

Ferðatorgið hefur verið haldið sjö sinnum frá árinu 2000 og er því ætlað að vera markaðstorg ferðaþjónustu á Íslandi. „Ferðatorgið verður sem fyrr kynning þeirra mörgu ferða- og afþreyingarmöguleika sem bjóðast á Íslandi. Ferðatorgið er líka fólkið sem þar verður og ætlar að koma upplýsingum um ferðaþjónustuna, lífið og tilveruna í sínum landshluta á framfæri. Markmið okkar með Ferðatorginu er að stuðla að auknum ferðalögum Íslendinga um eigið land. Ferðaþjónusta hér innanlands er víða mesti vaxtarbroddur atvinnulífsins og oftar en ekki hefur þessi grein valdið því að byggð hefur haldist,“ segir Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands.

Í tilkynningu segir að á sýningunni Golf 2009 verður hægt að nálgast á einum stað allt það nýjasta um golfíþróttina – og þeir sem hafa áhuga á að kynna sér golfið í fyrsta sinn finna líka eitthvað við hæfi því golfkennarar verða á staðnum til að ráðleggja þeim um fyrstu skrefin. „Þrátt fyrir niðursveiflu í samfélaginu verða golfvellirnir jafngrænir næsta sumar og undanfarin ár. Ætlun okkar er að kynna það starf sem fram fer á golfvöllum landsins og bjóða fyrirtækjum sem þjónusta kylfinga og golfvellina að kynna starfsemi sína. Ætlunin er að útbúa glæsilega aðstöðu í sýningarhöllinni þar sem hægt verður að prófa og fá upplýsingar um nýjasta búnaðinn auk þess sem golfklúbbar landsins hafa aðstöðu til að kynna sig. Við stefnum að því að golfsýningin verði jákvæð og uppbyggileg byrjun á skemmtilegu golfsumri,“ segir Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands, í tilkynningu.

Framkvæmdaraðili sýningarinnar er AP almannatengsl og samstarfsaðilar iðnaðarráðuneytið, Ferðamálasamtök Íslands, Ferðamálastofa, Golfsamband Íslands og Icelandair. Starfsmenn AP almannatengsla hafa áralanga reynslu í stjórnun stærri jafnt sem minni viðburða og hafa m.a. séð um sýningarnar Verk og vit 2006 og 2008 og Tækni og vit 2007. Nánari upplýsingar er að finna á www.ferdalogogfristundir.is .