Ákveðið hefur verið að fresta framkvæmd sýninganna Matur 2008 og Ferða og Golfsýningarinnar 2008. Þessi ákvörðun er tekin í samráði við skipuleggjendur og samstarfsaðila í ljósi núverandi markaðsaðstæðna hér á landi og væntinga þeirra fyrirtækja sem tekið hafa þátt í sýningunum á undanförnum árum, segir í fréttatilkynningu á vef Ferðamálastofu.

„Ytri aðstæður hafa breyst í þjóðfélaginu og þátttaka í sýningunum í núverandi formi er að þessu sinni ekki eins almenn og gert hafði verið ráð fyrir. Ljóst er að fyrirtæki hafa nú minni fjármuni til fjárfestinga í markaðs og kynningarstarfi á innlendum markaði í tengslum við sýningahald, en verið hefur á undanförnum árum. Sýningarhald sem hluti markaðs og kynningarstarfs er þó eftir sem áður mikilvægur þáttur í markaðsstarfi fyrirtækjanna og til þess að koma til móts við þessar þarfir er nauðsynlegt að endurmeta og breyta áherslum í sýningarhaldinu," segir í tilkynningunni

Matur 2008:

Fyrirhugað er að sýningin Matur verði haldin í byrjun vetrar og þá með öðrum formerkjum og með nýjum áherslum en verið hafa hingað til. Nýjar upplýsingar um sýninguna og annað fyrirkomulag í tengslum við hana verður komið á framfæri á vormánuðum.

Ferðasýningin og Golf 2008:

Ferðatorg sem nýtur stuðnings Ferðamálasamtaka Íslands mun einnig frestast. Fyrirhugað er að efna til Ferðatorgs í öðru samhengi þegar nær dregur sumri og framkvæmd ferðasýningar fyrir innlendan markað endurskoðuð í samvinnu við Ferðamálasamtök Íslands og SAF.