„Hækkun Seðlabankans á stýrivöxtum kemur ekki á óvart. Verðbólga er nú að mestu leyti innflutt og erfitt að sjá hvernig hækkun bankans spornar gegn því. Sé markmiðið að lækka verðbólgu einvörðungu með því að hækka gengi krónunnar má segja að bankinn sé í reynd ekki með verðbólgumarkmið heldur gengismarkmið,” sagði Ársæll Valfells, hagfræðingur og lektor við Háskóla Íslands, í samtali við Viðskiptablaðið.

Að sögn Ársæls virðist hækkun vaxta hafa haft lítil áhrif til að auka innflæði af gjaldeyri á markaði, þó gjaldeyriskiptamarkaður hafi lagast eitthvað með útgáfu bankans á innistæðubréfum.

„Í Peningamálum fjallar bankinn um ástandið á gjaldeyrismarkaði og nefnir tvö úrræði til að afla gjaldeyris til að bregðast við núverandi ástandi. Hið fyrra er áframhaldandi útgáfa á ríkistryggðum innistæðubréfum og hið seinna er skuldsetning ríkissjóðs. Fyrri leiðin er áframhald á núverandi stöðu þar sem að reynt er að fá eigendur gjaldeyris til að kaupa krónur með háum vöxtum.

Ókostur þessa er að ekkert ríki styðst við háa vexti sem uppsprettu gjaldeyris til lengri tíma. Aðgerðin hefur einnig í för með sér að framboð af krónum minnkar í fjármálakerfinu og bankar munu því þurfa að bregðast við því. Erlend lántaka er heldur ekki vænlegur kostur þar sem með henni er núverandi vandi er færður til framtíðar.

Ljóst er að næstu misseri verða atvinnulífinu mjög þung ef vextir hér verða áfram með þeim hæstu í heimi á sama tíma og kreppa er á gjaldeyrismarkaði. Markaðsaðilar bíða enn eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að leysa þennan vanda."