Tækninefnd ábyrgra fiskveiða hefur lokið endurskoðun og uppfærslu á rekjanleikastaðal (IRFM Chain of Custody Standard), og verður hann nú opinn til kynningar og umsagnar í 60 daga, til 6. júlí næstkomandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsstofu.

Megintilgangur vottunar á vegum ÁF er að sýna fram á á gagnsæjan hátt, að Íslendingar stundi ábyrgar fiskveiðar og fari að alþjóðlega viðurkenndum samningum og fylgi viðmiðum sem sett eru af Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ, FAO.

IRFM rekjanleikastaðallinn byggir m.a. Leiðbeiningum FAO um umhverfismerkingar og vottun á veiðum og afurðum villtra fiskistofna frá 2005/09 (FAO Guidelines for the Ecolabelling of Fish and Fishery Products from Marine Capture Fisheries), ásamt ISO stöðlum og öðrum alþjóðlegum samningum um staðlagerð og faggildingu.

Tækninefnd ÁF, sem ber ábyrgð á skrifum og útgáfu staðla ÁF, samanstendur af sérfræðingum frá opinberum stofnunum, sem tengjast sjávarútvegi og félögum og fyrirtækjum í greininni.

Tækninefndinni ber samkvæmt verklagsreglum að uppfæra formlega staðla á fimm ára fresti að lágmarki. Eftir þá endurskoðun ber að setja endurskoðaðan staðal í 60 daga kynningar- og umsagnarferli skv. leiðbeiningum FAO og kröfum GSSI. Tækninefndin mun taka til skoðunar allar efnislegar athugasemdir, sem berast og sem leiða til breytinga til batnaðar miðað við hlutverk og markmið staðalsins.