Í gær var opnuð ljósmyndasýningin „Íslenskir hryðjuverkamenn" á www.thorkell.com og í Smáralind.

Á sýningunni verða sýndar 79 myndir, af alls 98 meintum íslenskum „hryðjuverkamönnum".

Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandanda sýningarinnar.

„Sýningunni er ætlað að sýna fram á fáránleika þess að bresk stjórnvöld hafi nýlega beitt hryðjuverkalögum þar í landi gegn Íslendingum og valdið þar með íslensku þjóðinni og ímynd Íslands á alþjóða vettvangi ómældum og óbærilegum skaða,“ segir í tilkynningunni.

„Jafnframt er tilgangur ljósmyndaverkefnisins að gefa Íslendingum tækifæri til að veita reiði sinni í garð breskra stjórnvalda útrás með jákvæðum hætti.“