*

laugardagur, 23. janúar 2021
Innlent 5. júní 2020 12:25

Sýnataka mun kosta 15.000 krónur

Ferðamenn munu þurfa greiða 15.000 krónur vegna sýnitöku fyrir COVID. Gjaldfrjálst verður fyrstu 2 vikurnar.

Ritstjórn
Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Allir farþegar sem koma til landsins og kjósa að fara í sýnatöku vegna COVID-19, fremur en að sitja í sóttkví í 14 daga, munu frá og með 1. júlí næstkomandi þurfa að greiða 15.000 krónu gjald. Tillaga heilbrigðisráðherra um gjaldtökuna var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Frá þessu greinir Stjórnarráðið.

Gjaldið miðast við beinan kostnað ríkisins annan en stofnkostnað. Sá kostnaður er miðaður við fyrirliggjandi kostnaðargreiningu sem fram kom í skýrslu sem kynnt var í ríkisstjórn 26. maí síðastliðinn.

Sýnataka á landamærum hefst 15. júní og verður gjaldfrjáls fyrstu tvær vikurnar. Börn fædd árið 2005 eða síðar þurfa ekki að fara í sýnatöku.

Eins og fram hefur komið mæla hagfræðileg rök með því að ferðamenn verði látnir greiða fyrir kostnað við sýnatöku. Nú liggur fyrir að alþjóðaheilbrigðisreglugerðin stendur ekki í vegi fyrir slíkri gjaldtöku, enda sé sýnatakan valkvæð og tilkynnt með hæfilegum fyrirvara.