Áætlaður kostnaður af sýnatöku ferðamanna á Keflavíkurflugvelli er um 11,3 milljónir króna á dag ef miðað er við 500 dagleg sýni. Afkastageta flugvallarins væri þá þrjú 200 manna flug á dag en þetta kemur fram í skýrslu sem verkefnisstjórnin skilaði Heilbrigðisráðuneytinu í gær.

Verkefnisstjórnin var skipuð á grundvelli tillögu heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra um að stefna að því að bjóða COVID-19 próf við komuna til landsins í stað þess að sæta 14 daga sóttkví eða framvísa vottorði. Áætlað er að verkefnið hefjist eigi síður en 15. júní næstkomandi og mun standa í tvær vikur áður en framhaldið verður ákveðið.

Sýnataka fyrir eina 200 manna vél mun taka um 45 mínútur og verkefnisstjórnin telur að unnt sé að skila niðurstöðum á um það bil 5 klukkustundum.

Í skipunarbréfi Heilbrigðisráðuneytisins var sagt að verkferlar og afköst skuli miða við 1000 sýni á dag en verkefnisstjórnin telur að greiningargeta fyrir ferðamenn á Keflavíkurflugvelli sé um 500 sýni. Greiningargeta sýkla- og veirufræðideild (SVEID) Landspítalans er um 700-800 sýni á sólarhring að mati deildarinnar miðað við núverandi mönnun og allt að 200 sýni koma nú þegar á SVEID á hverjum degi.

Ef miðað er við 500 sýni á dag þá er áætlaður kostnaður fyrir vikurnar tvær 144,3 milljónir króna eða 158,7 milljónir með ófyrirséðum kostnaði upp á 14,4 milljónum króna. Kostnaður á hvert sýni yrði þá 22.674 krónur á hvern ferðamann. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fengi um 26,4 milljónir, SVEID fengi um 77 milljónir og embætti landlæknis og Isavia fengju sitthvorar 20 milljónirnar.

Ef miðað er við eitt flug á dag þá yrði kostnaður af 200 ferðamönnum 93,8 milljónir króna yfir tveggja vikna tímabil eða um 34 þúsund krónur á hvern ferðamann.

Verkefnisstjórnin tekur þó fram að hægt væri á næstunni, jafnvel í júlí, að auka greiningargetuna í 1.200-1.300 sýni á sólarhring með tækjabúnaði sem styður við aukna sjálfvirkni samfara auknu öryggi í meðhöndlun sýna með minni hættu á villum