Íslensk stjórnvöld gætu ákveðið að bíða með útgáfu ríkisbréfa í evrum vegna þess að Ólafur Ragnar Grímsson staðfesti ekki Icesave-samningana. Fjallað er um málið á vef Bloomberg. Til stóð að ráðast í fyrsta evru-útboðið frá því árið 2006.

Í samtali við Bloomberg segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að ljóst sé að ríkisstjórnin þurfi nú að hægja á og meta stöðuna á næstu dögum og vikum. Hann sagði að synjunin þýði að málinu ljúki ekki á næstu dögum og að nú þurfi að endurmeta mikið af þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa lagt drög að.

Ríkisstjórnin ætlaði að sækja sér allt að 713 milljónir evra á alþjóðlegum mörkuðum í ár. Segir í frétt Bloomberg að skuldatryggingarálagið á ríkissjóð gæti hækkað vegna synjunar forseta. Haft er eftir Valdimar Ármanni, hagfræðingi hjá GAMMA, að óvissan gæti þýtt að fjárfestar fari fram á hærri vexti en áður.