Vesturbæingar hafa tekið eftir litlu skilti í glugganum á Hringbraut 119, þar sem veitingastaður XO var til húsa, um að innan tíðar muni opna sýrlenskur veitingastaður. Líklega eru fjölmargir óþreyjufullir eftir því að fjölbreytni afþreyingar og þjónustu á svæðinu aukist á ný.

Stofnendur veitingastaðarins sem mun bera nafn hins fræga hrísgrjónarétt, Zorbian, bræðurnir Aron og Elmar Jarrah, vinna nú hörðum höndum ásamt föður sínum, Zuheir Jarrah, við að mála og innrétta staðinn. „Þetta verður arabískur staður með sýrlenskum mat eins og kebab, sýrlensku grilli og pítu. Fyrsti opnunardagurinn verður 1. nóvember og við ætlum að vera með opið frá 10 til 22 á virkum dögum og 11 til 22 um helgar. Það verður bæði hægt að sækja og sitja á staðnum og borða,“ segir Aron.

„Við erum að stofna staðinn saman með föður okkar, en hann var lengi kokkur í Sýrlandi, eins og frændi minn sem rekur sýrlenska veitingastaðinn Biryani í Keflavík. Þeir byrjuðu að vinna á veitingastöðum mjög ungir og sömuleiðis við bræðurnir. Þegar ég kom til Íslands fyrir fimm árum og fimm mánuðum, vann ég fyrst hjá frænda mínum og var mjög gaman að sjá hve Íslendingar voru spenntir fyrir matnum sem við gerðum þar. Þeim líkaði mjög vel við matinn sem við gerðum svo það var draumur okkar að opna veitingastað með kebab og arabískum mat hérna í borginni.“

Aron segir að þeir feðgar hafa keypt reksturinn af eigendum XO á sanngjörnu verði, en þeir hafi til viðbótar þurft að kaupa sérhæfðar eldunargræjur sem þeir fái afhentar í næsta mánuði til að bjóða upp á ekta sýrlenskt bragð. „Við erum búnir að verja miklum peningum í þennan stað núna í að bæta og breyta. Við getum ekki notað eldunargræjurnar frá þeim heldur verða þær að vera öðruvísi þar sem þeir búa ekki til sams konar kebab og við gerum. Það er mjög mikill munur á bragðinu hjá okkur og hjá XO,“ segir Aron.

„Ég var að vinna hjá Gunnari Erni Jónssyni í XO áður, þegar hann var með tvo staði, hér og í Smáralind og hafði þá spurt hann hvort hann vissi um einhvern veitingastað sem vildi selja því við vildum kaupa okkar eigin. Hann hringir svo í mig og segir mér frá því að hann vilji selja staðinn og þá var ég mjög spenntur fyrir þessari staðsetningu.

Ég held að Íslendingar þekki orðið vel svona mat eins og við ætlum að bjóða upp á. Það eru nú þegar nokkrir arabískir veitingastaðir í Reykjavík sem gera svipaðan mat, en við verðum með annað bragð, því við notum sérstaka kryddblöndu á kjúklinginn og lambið sem við höfum notað í margar kynslóðir í fjölskyldunni minni. Afi minn notaði kryddblönduna fyrir löngu síðan en hann var með marga veitingastaði í  Sýrlandi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Wow air 2,0 stefnir á flug í næsta mánuði
  • Gagnrýni á Samgöngustofu vegna aðgerðarleysis gagnvart brotlegum hópbifreiðafyrirtækjum
  • Opnun nýrrar smáþörungaverksmiðju
  • Afkoma stærstu bílaleiganna er krufin til mergjar
  • Myndir frá Sjávarútvegsdeginum sem SFS stóð fyrir
  • Gagnrýni á söluferli ríkisins á hlut sínum í Klakka
  • Starfsmaður nýstofnaðrar skrifstofu til stuðnings tækniyfirfærslu fer yfir ævintýralegan feril
  • Íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki leggur undir sig land í Evrópu
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um alræði öreiganna
  • Óðinn fer yfir fjárlagafrumvarpið