Embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu telur ekki þörf á bráðabirgðabreytingum á ýmsum lögum, er embættið varða, vegna faraldurs kórónaveirunnar. Þetta kemur fram í umsögn sýslumanns við frumvarp dómsmálaráðherra þess efnis.

Frumvarpið felur í sér ýmsar breytingar til bráðabirgða til að tryggja að starfsemi í réttarkerfinu geti gengið smurt fyrir sig á tímum samkomubanns. Meðal annars er mælt fyrir um heimild til að taka rafrænar skýrslutökur af sakborningum, rafræna meðferð fyrir Útlendingastofnun og ýmsa rafræna afgreiðslu hjá sýslumönnum á borð við útgáfu dánarvottorða og meðferð fullnustugerða.

Í umsögn sýslumanns segir að fyrirtökur í nauðungarsölu-, kyrrsetningar- og aðfararmálum hafi gengið vel fyrir sig þrátt fyrir heimsfaraldurinn. Alltaf hafi gerðarbeiðandi mætt og aðgerðirnar því óþarfar í raun.

„Fyrirtökuherbergi embættisins eru almennt ekki útbúin með fjarfundi í huga og eru ekki búin tækjum og tækni fyrir slíka fundi. Kostnaðarsamt fyrirhöfn [sic!] er að koma slíku fyrir vegna svona bráðabirgðaákvæða,“ segir í umsögninni.

Að jafnaði séu um hundrað fjárnám afgreidd á degi hverjum hjá embættinu og hverri og einni fyrirtöku ætlaður ákveðinn tími. Reglulega riðlist dagskrá. Erfitt gæti verið að nýta fjarfundatækni við meðferð málanna.

„Er gert ráð fyrir því að gerðarbeiðandi hringi í embættið og fái samband inn í fyrirtökuherbergi? Eða er ætlast til þess að sýslumaður hringi í gerðarbeiðendur þegar kemur að hans máli eða málum? Hvað ef fyrirtöku seinkar, hversu lengi þurfa menn að bíða við símann?“ segir í umsögninni.

„Aðför hefst á því að gerðarþola er kynnt krafa gerðarbeiðanda, afstaða hans til kröfunnar er könnuð og síðan er skorað á gerðarþola að greiða kröfuna og greiðir hann þá kröfuna beint til gerðarbeiðanda. Hvernig er framkvæmdin hugsuð hvað það varðar? Á sýslumaður að taka peningana í síanr vörslur? Það kallar þá væntanlega á stofnun vörslureikninga o.s.frv.. Telst skuldin þá greidd gerðarbeiðanda þegar peningarnir eru komnir í vörslu sýslumanns? Hvað ef gerðarþoli leggur fram skrifleg mótmæli eða kvittun t.d. úr heimabanka? Gerðarbeiðandi getur þá ekki lesið eða skoðað gögnin og tekið afstöðu til þeirra eins og honum ber að gera,“ segir í umsögninni.

Umrædd ákvæði séu því óþarfi enda hafi sýslumaður þegar gripið til aðgerða og breytt framkvæmd svo meðferð mála gangi á meðan samkomubann er í gildi.

Í umsögn Persónuverndar um frumvarpið er bent á ýmis atriði er varða upplýsingaöryggi og gildissvið frumvarpsins.  Þá leggur Arion banki til breytingu á lögum um aðför þess efnis að rafræn undirritun teljist gild til aðfarar, í það minnsta tímabundið. Fyrirséð sé að breytingin hafi í för með sér jákvæð áhrif á fylgni við samkomubann og fjarlægðartakmarkanir.