„Við erum að tala um í kringum 10.000 skjöl sem höfðu safnast upp," segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala í samtali við fréttastofu Stöðvar 2. Hann segir að löng bið geti verið eftir þinglýsinu skjala þegar fasteignakaup séu annars vegar, vegna tafa sem hafa orðið vegna verkfalls BHM.

„Nú er það þannig að sýslumaður er sem betur fer farinn að hefja störf að því að grynnka á bunkanum. En það gengur  náttúrulega hægt, því miður. Við erum að tilkynna kaupendum og seljendum að það geta verið tafir allt upp í tvo mánuði eftir skjölum sem er verið að þinglýsa í dag," segir hann jafnframt. „Það gengur ekki nógu hratt á bunkann því það eru ekki margir að vinna að þessu."

Lög um þinglýsingar ekki virt

Vegna tafa hefur ekki verið hægt að fullnægja skilyrðum laga um þinglýsingar. Lögin gera ráð fyrir að skjölum sé þinglýst innan 14 daga frá því að þau berast sýslumönnum.

„Lögin mæla fyrir um það að sýslumaður eigi að vera búinn að þinglýsa skjölum innan 14 daga, en það er alveg ljóst að það er bara ekki hægt í dag," segir Grétar.

„Vandamálið hefur verið þetta að það er fólk sem er að kaupa, það kannski borgar sig inn með 20 milljón króna skuldabréfi. Svo fær seljandinn enga peninga. Það eru greiðslur að dragast jafnvel mánuðum saman og þá er augljóst að það er hann [seljandii} sem er að tapa, þar sem hann færi ekki greiðsluna."

Kaupendur greiði vexti sem málamiðlun

Þar til bið eftir þinglýsingu styttist hefur verið lagt til að kaupendur fasteigna greiði seljendum 6% vexti af greiðslum sem ekki berast vegna tafa á þinglýsingum hjá sýslumanni. Hins vegar sé einungis um að ræða tilmæli sem séu ekki bindandi.

„Verstu dæmin eru náttúrulega þetta þegar fólk er ekki að fá greiðslu og hefur nauðsynlega þurft að fá greiðslu til að inna hana af hendi til einhvers annars. Það er jafnvel að standa skil á dráttarvöxtum af þessum peningum annarsstaðar," segir Grétar.