Deutsche Telekom, móðurfélag breska T-Mobile símafyrirtækisins og France Telecom, móðurfélag Orange, hafa komist að samkomulagi um að búa til sameiginlegt eignarhaldsfélag um símareksturinn í Bretlandi. Samkvæmt frétt Telegraph í dag verður þar um að ræða stærsta símafélag Bretlands.

Sameiginlegt fyrirtæki Orange og T-Mobil mun hafa um 37% markaðshlutdeild í Bretlandi, en þar hefur Orange verið með 22% hlutdeild og T-Mobil með 15%.  Helsti keppinauturinn O2 er með 27% markaðshlutdeild og Vodafone er með 25% hlutdeild.

Þessi ákvörðun kemur í kjölfar vangaveltna um að Vodafone og O2 sem er í eigu spænska símafélagsins Telefonica hafi boðið 3,5 til 4 milljarða punda í T-Mobil sem átt hefur átt erfitt í samkeppninni. Segir Telegraph að Rene Oberman forstjóri Deutsche Telekom hafi hafnað tilboðinu þar sem það væri of lágt. Sagt er að félagið hafi þegar afskrifað 1,8 milljarða punda í T-Mobil og sala til til Vodafone og Telefonica heffði þýtt enn meiri afskriftir.

Í stað þessa undirrituðu Rene Oberman forstjóri Deutsche Telekom og Didier Lombard forstjóri France Telecom samkomulag í París á mánudag um stofnun sameiginlegs símafélag í Bretlandi. Á það samkvæmt frétt Telegraph að standa á bak við rekstur T-Mobile og Orange með margvíslegri samnýtingu þó merkin tvö verði áfram við lýði.

Gert er ráð fyrir að með sameiginlegum rekstri verði hægt að spara um 3,5 milljarða punda á ári. Ekki er þó ljóst hvað verður um Virgin Mobile fyrirtækið sem séð hefur um rekstur dreifikerfis T-Mobil.