Sjóðir í stýringu bandaríska vogunarsjóðarins Taconic Capital Advisors eru komnir með rétt yfir 16% eignarhlut í Arion banka. Samkvæmt flöggunartilkynningu í kauphöllinni fer fjárfestingarsjóðurinn nú með atkvæðarétt fyrir þessi bréf.

Breytingin sem tilkynnt er um nú nemur akkúrat þeim 90,7 milljón hlutum sem Viðskiptablaðið greindi frá í lok síðustu viku að sjóðurinn hefði keypt af Kaupskilum, eignarhaldsfélagi gamla Kaupþings, sem sjóðurinn er jafnframt einn stærsti hluthafinn í.

Á föstudaginn hafði nýuppfærð heimasíða bankans skráð að Taconic Capital Advisors væri með 14,53% eignarhlut, en samkvæmt tilkynningunni nú nemur eignarhluturinn sem sjóðurinn er með atkvæðarétt fyrir 16,025%.

Samhliða hefur flöggunartilkynning frá Kaupskilum staðfest að félagið sé enn með atkvæðarétt fyrir 20% hluta í bankanum, en í upphafi mánaðarins tilkynnti félagið, sem þá átti enn um þriðjung í bankanum, að það hyggðist selja 10% eignarhlut .

Heildarfjöldi bréfa í stýringu fjárfestingarsjóðsins nemur nú 290,699.999 hlutum, sem miðað við 76,90 króna lokagengi eftir viðskipti í kauphöllinni í dag samsvarar tæplega 22,4 milljörðum króna.

Fleiri fréttir um málefni Arion banka: