Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital hefur verið sá sem leitt hefur fjárfestingar þess hóps erlendra fjárfesta sem keypti tæplega 30% hlut í Arion banka á dögunum.

Nema kröfur sjóðsins, á hendur íslenskum félögum, í formi hvort tveggja skuldabréfa og hlutafjár yfir 150 milljörðum króna að því er segir í Fréttablaðinu í dag.

Taconic á tæplega 40% í Kaupþingi

Munar þar langmest um tæplega 40% hlut Taconic Capital í Kaupþingi, en sjóðurinn hefur meira en tvöfaldað hlut sinn í þrotabúinu með uppkaupum á bréfum annarra hluthafa, þar á meðal á bréfum Seðlabankans eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

Miðað við þær endurheimtur sem ætla megi að geti orðið af þessum hlut áætlar Fréttablaðið að hluturinn sé núna að andvirði um 130 milljarða króna.

Hafa 60 daga til að afgreiða umsóknina

Sjóðurinn hyggst enn bæta við fjárfestingar sínar hér á landi, en Taconic sendi Fjármálaeftirlitinu tilkynningu síðastliðinn fimmtudag um að hefja formlega hæfismat til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka.

Eins og fram hefur komið í fréttum keypti sjóðurinn 9,99% eignarhlut í Arion banka, en þegar eignarhluturinn hefur náð yfir 10% markið þarf félagið að hafa vottun FME fyrir að mega eiga virkan eignarhlut.

Kaupunum fylgdi kaupréttur á auknum hlut í bankanum, en eftirlitið hefur 60 virka daga til að afgreiða umsóknina frá því að hafa staðfest móttöku tilkynningar um hæfismat.