Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital hefur selt rúmlega 10% hlut í Arion banka í ár. Nú síðast seldi sjóðurinn fyrir 2,6 milljarða króna í annarri vikunni í febrúar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins .

Í þeim viðskiptum seldi sjóðurinn 24 milljónir hluta að nafnvirði á á genginu 108. Gengi Arion hefur hækkað um 15% síðan þá og stendur nú í 124 krónum á hlut. Sjóðurinn seldi einnig hlutabréf í Arion fyrir 11 milljarða króna í lok janúar og fyrir þrjá milljarða króna í fyrstu vikunni í febrúar.

Sjá einnig: Vogunarsjóðir selja og selja í Arion

Taconic, sem er enn stærsti hluthafi Arion, seldi því hlutabréf í Arion banka fyrir rúmlega 17 milljarða króna í þremur lotum á tveggja vikna tímabili. Samtals seldi sjóðurinn 174 milljónir hluta að nafnvirði.

Samkvæmt hluthafalista Arion banka sem er uppfærður daglega nemur eignarhlutur Taconic nú 13,11%. Gildi lífeyrissjóður er næst stærsti hluthafinn með 9,9% hlut.

Vogunarsjóðurinn Sculptor Capital Management, áður Och-Ziff Captial, hefur einnig selt allan hlut sinn í Arion en sjóðurinn var í fyrra næst stærsti hluthafi Arion með 10% hlut. Sculptor seldi hlutabréf Arion fyrir samtals 16 milljarða króna frá byrjun desember á síðasta ári.