Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, stærsti hluthafi Arion banka, hefur selt útistandandi hluti sína í bankanum. Þetta herma heimildir Viðskiptablaðsins. Tilkynning um viðskiptin hefur ekki verið send kauphöllinni.

Samkvæmt hluthafalista Arion banka á sjóðurinn nú tæp 9,6% í bankanum. Heimildir blaðsins herma að salan hafi farið fram á genginu 120 og var nafnvirði hlutanna rúmlega 165 milljónir. Samanlögð upphæð sölunnar er því tæplega 20 milljarðar króna.

Þegar mest var átti sjóðurinn tæplega fjórðungshlut í bankanum en það sem af er ári hefur hann jafnt og þétt minnkað við sig fyrir á fimmta tug milljarða. Hið sama má segja um aðra erlenda aðila. Um mitt síðasta ár áttu þeir tæplega helming útgefinna hluta en eftir söluna nú eiga erlendir aðilar aðeins brot af útgefnum hlutum. Sculptor/Och-Ziff átti til að mynda tæp tíu prósent í september síðastliðnum en hafði selt allt sitt undir lok febrúar. Lansdowne Partners átti rúm fimm prósent í árslok 2019 en nú lítið sem ekkert.

Velta með bréf í Arion nam 600 milljónum króna í gær samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni og og lokaði bankinn deginum á genginu 116. Á síðustu tólf mánuðum hefur virði hluta í bankanum ríflega tvöfaldast og þá hafa bréfin hækkað um nærri fjórðung frá því sem þau voru í upphafi árs. Hæst fóru þau í 126,5 um miðjan febrúar.