*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 5. apríl 2017 10:16

Taconic taldi bréfin undirverðlögð

Frank Brosens, stofnandi og eigandi Taconic vogunarsjóðsins sagði bréfin í Kaupþingi töluvert undirverðlögð um mánuði áður en keyptu bréf Seðlabankans í þrotabúinu.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Skömmu áður en Seðlabankinn seldi megnið af 6% hlut sínum í Kaupþingi í nóvember í fyrra, hafði bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital lýst því yfir opinberlega að bréfin í félaginu væru talsvert undirverðlögð á viðskiptum á eftirmarkaði.

50 milljarða eingreiðsla hækkaði virðið

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um áður, þá reyndist það rétt. Rúmlega tveimur mánuðum eftir að Seðlabankinn seldi hlut sinn fyrir samtals 19 milljarða rauk gengi bréfanna upp í kjölfar þess að sættir náðust í ágreiningsmáli Kaupþings við Deutsche bank sem fólu í sér 50 milljarða eingreiðslu til Kaupþings.

Hækkaði gengið um liðlega 30% í kjölfarið að því er segir í Fréttablaðinu um málið og því hluturinn sem hafði verið í eigu Seðlabankans um fjóra til sex milljarða króna.

Sagði bréfin verðmætari en keypti þau á

Frank Brosens, stofnandi og eigandi Taconic Capital, flutti erindi á fjárfestingarráðstefnu í Chicaco í lok október á síðasta ári þar sem hann sagðist telja rétt verð á bréfum Kaupþings í kringum 100, en á þessum tíma var gengið, miðað við höfuðstól breytanlegra skuldabréfa, um 86, sem er nánast sama verð og Seðlabankinn seldi bréfin á.

Núna er gengi bréfanna hins vegar komið í kringum 115 svo sjóðurinn hefur hagnast verulega á kaupunum á skömmum tíma. Aðrir kaupendur á bréfum Seðlabankans voru meðal annars Attestor Capital, en báðir sjóðirnir keyptu nýlega af Kaupþingi, 9,99% hlut í Arion banka.

Vildi ekki hafa aðkomu að sölunni

Seðlabankinn ákvað að selja því hann taldi óheppilegt að vera hluthafi í Kaupþingi á sama tíma og verið væri að ganga frá sölu á stórum hluta félagsins í Arion banka að því er segir í blaðinu.

Þannig væri ekki hægt að segja að íslensk stjórnvöld hefðu í reynd óbeina aðkomu að sölu bankans sem einn stærsti hluthafi Kaupþings.