*

miðvikudagur, 3. júní 2020
Innlent 21. mars 2017 08:10

Taconic á um þriðjungshlut í Arion

Frank Brosens, stofnandi og eigandi Taconic Capital vogunarsjóðsins, segir að þeir hafi ekki viljað tefja söluferlið.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Þeir fjórir fjárfestar sem keyptu tæplega 30% hlut í Arion banka um helgina eiga í gegnum hlut sinn í Kaupþingi um 67% hlut í Arion banka eftir kaupin. Fjárfestarnir greiddu 49 milljarða fyrir hlutinn, í reiðufé.

Stærsti hlutinn er í eigu vogunarsjóðsins Taconic Capital, en hann á um 38,6% í Kaupþingi, svo óbeinn hlutur hans í gegnum 58% eignarhlut Kaupþings í Arion banka er því 22,3% að því er segir í Morgunblaðinu í dag.

Með kaupum hans á rétt tæplega 10% hlut í Arion banka á sjóðurinn því tæplega þriðjungshlut í bankanum í heildina. Miðað við kaupverðið á 30% hlutanum ætti verðmæti þess því að vera um 54 milljarðar króna.

Stofnandi og eigandi Taconic Capital, Frank Brosens, segir að ákveðið hafi verið að fara ekki yfir 10% eignarmörkin til að tefja ekki söluferlið, en reglur fjármálaeftirlitsins fara fram á nánari skoðun á öllum eigendum að 10% eignarhlut í bönkunum.

„Ég veit ekki hve lengi við höldum þessu,“ sagði Brosens og vísar í eignarhlutinn í Arion banka. „Það fer eftir því hvað markaðurinn er lengi að meðtaka virði og horfur bankans.“