*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 12. apríl 2017 11:39

Taconic veðjar á íslensku hagsveifluna

Fjárfestingar Taconic Capital í Arion banka er minnst varin fyrir gengisáhættu öfugt við hina sjóðina sem keyptu í Arion banka

Ritstjórn
Aðsend mynd

Fjárfestarnir fjórir sem standa að kaupum á tæplega 30% hlut í Arion banka eru stærstu hluthafar Kaupþings, með samanlagt um 70% hlut í Kaupþingi. 

Af þeim leit þó út fyrir á tímabili að Taconic Capital yrði eini sjóðurinn sem myndi kaupa í bankanum að því er Fréttablaðið greinir frá, en sjóðurinn ræður yfir um 7 milljörðum Bandaríkjadala fjármagni.

Riðu fyrstir á vaðið

Gerði vogunarsjóðurinn tilboð í hlut í bankanum strax í desember í fyrra, en á þeim tíma voru aðrir sjóðir sem eiga í Kaupþingi ekki reiðubúnir til að slá til. 

En hinir sjóðirnir sem tóku þátt í kaupunum, Attestor Capital, Och-Ziff Capital og Goldman Sachs, breyttu um skoðun í kjölfarið og voru þeir með í kaupunum sem samið var um 12. febrúar. Auk kaupanna á 29,2% hlut í Arion banka eiga sjóðirnir nú kauprétt að um 22% hlut til viðbótar síðar á árinu.

Með stjórnarmann í Arion banka

Taconic hefur haft mikil ítök í söluferlinu öllu, en sem dæmi um það er tilkoma þeirra Paul Copley, núverandi stjórnarformanns og forstjóra Kaupþings, og John P. Madden, framkvæmdastjóra þrotabúsins inn í félagið, að tilstuðlan Keith Magliana, sem stýrt hefur umsvifum Taconic Capital hér á landi frá því að sjóðurinn keypti fyrst kröfur í Kaupþingi árið 2012.

Madden var kjörinn í stjórn Arion banka í september í fyrra, en hann er eini stjórnarmaður bankans með bein tengsl við Kaupþing.

Gengisvarnir undir 40% af fjárfestingu sjóðsins

Fjárfestingar sjóðsins, sem eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um, nema í dag yfir 150 milljörðum hér á landi, virðast fyrst og fremst hugsaðar sem veðmál á íslensku hagsveifluna.

Er sjóðurinn til að mynda minnst varinn gagnvart gengissveiflum krónunnar við kaupin á Arion banka. Nema gengisvarnirnar undir 40% af fjárfestingu Taconic í bankanum, meðan fjárfestingar til að mynda Och-Ziff Capital eru að stærstum hluta varin fyrir gengi krónunnar.

Efnahagsstaða Íslands ein sú besta í heiminum

Frank Brosens stofnandi og eigandi Taconic hefur sagt að sjóðurinn vilji fjárfesta í styrkleika íslenska hagkerfisins og tilheyrandi styrkingu krónunnar.

„Þegar þú lítur á tölur um hagvöxt, mikinn viðskiptaafgang, ört vaxandi gjaldeyrisforða og litlar skuldir ríkisins þá er efnahagsstaða Íslands á pari við það sem best gerist hjá nokkru öðru ríki í heiminum,“ segir Brosens.

„Efnahagsumhverfið er því mjög gott og núna þegar Ísland er að brjótast út úr höftum virðist það ætla ða vaxa jafnvel hraðar en við bjuggumst við.“

25% hagnaður frá ágúst 2015

Sjóðurinn hefur nú þegar hagnast verulega á gengisstyrkingunni, en sjóðurinn fjárfesti á bilinu 5 til 10 milljörðum í íslenskum ríkisskuldabréfum á síðustu tveimur árum að sögn Fréttablaðsins.

Gengishagnaður af sölu til að mynda ríkisbréfa af flokki RB31 sem keypt hefðu verið fyrir 10 milljarða í ágúst 2015, eða að andvirði 68 milljóna evra á þáverandi gengi, næmi um 2,5 milljörðum, auk eins milljarðs í vaxtagreiðslur.

Þetta eru þó dæmi um þau viðskipti sem stöðvuðust þegar Seðlabankinn kynnti fjárstreymistæki sitt til að stemma stigu við vaxtamunaviðskiptum í júní 2016.