Félagið Tækifæri ehf., sem er í eigu Arnars Más Jóhannessonar og Trausta Ágústssonar, bætti við sig 0,36% hlut í fjölmiðla- og fjarskiptafélaginu Sýn í síðasta mánuði og á nú 1,5% hlut í félaginu. Miðað við meðalgengi hlutabréfa Sýnar í júlí má ætla að kaupverðið hafi verið í kringum 57 milljónir króna. Markaðsvirði eignarhlutar félagsins nemur 264 milljónum króna.

Viðskiptablaðið sagði frá því í byrjun júní að Tækifæri, sem var stofnað í mars síðastliðnum, væri komið á lista yfir 20 stærstu hluthafa Sýnar.

Arnar Már Jóhannesson starfar sem endurskoðandi hjá Rýni endurskoðun. Hann var áður fjármálastjóri fjárfestingafélagsins Atorku á árunum 2007-2009. Trausti Ágústsson er stjórnarformaður og hluthafi vátryggingamiðlunarinnar Tryggingar og ráðgjöf, sem hefur m.a. séð um sölu á tryggingum frá Novis hér á landi.

Sýn hefur verið talsvert í umræðunni síðustu daga eftir að fjárfestingafélagið Gavia Invest keypti 12,7% hlut Heiðars Guðjónssonar, fráfarandi forstjóra Sýnar, og varð þar með stærsti hluthafi félagsins. Gavia fór í síðustu viku fram á að stjórn Sýnar boði til hluthafafundar til að kjósa um nýja stjórn.

Sjá einnig: Viðskipti með 6% hlut í Sýn

Í morgun fóru í gegn viðskipti með tæplega 6% hlut Sýn fyrir um einn milljarð króna. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, LSR, var meðal seljenda en sjóðurinn seldi um 1,9% hlut fyrir 320 milljónir króna.