Óhætt er að segja að þau fimm verkefni sem Alfa Framtak hefur ráðist í séu fjölbreytt. Sjóðurinn hefur fjárfest í Borgarplasti og Plastgerð Suðurnesja, Greiðslumiðlun Íslands sem rekur m.a. Motus, lækningatækjafyrirtækinu Nox Medical auk Málmssteypu Þorgríms Jónssonar. Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa segir að þó einungis hafi verið fjárfest í fimm fyrirtækjum hafi yfir 200 verið skoðuð.

„Það er mjög skipulagt hvernig við höldum utan um ferlið hjá okkur. Verkefni fer fyrst í forskoðun sem felur í sér að horfa í grunnstærðir fyrirtækisins, hverjum við værum að fara að starfa með og verðlagningu. Svo tekur við ítarlegri skoðun sem felur í sér verðmat, greiningu á markaði og viðskiptamódeli og dýpri samtöl við stjórnendur. Ef okkur lýst þannig á gerum við tilboð í félagið með fyrirvara um áreiðanleikakönnun. Ef fyrirtækið stenst áreiðanleikakönnun þá göngum við svo frá viðskiptunum með undirritun kaupsamnings.

Varðandi þau fyrirtæki sem við höfum fjárfest í nú þegar þá hefur það mótað okkur hvar við erum stödd í hagsveiflunni. Við höfum núna framan af okkar fjárfestingartímabili verið að horfa á félög sem eru ekki mjög hagsveiflunæm og það er í raun rauði þráðurinn í gegnum þau fyrirtæki sem við höfum keypt að þau eru ekki mjög næm fyrir íslensku hagsveiflunni.“

Tækifæri fyrir Ísland

Gunnar segir að þrátt fyrir að íslenskt efnahagslíf sé á góðum stað heilt yfir sé það stór áskorun að hér verði til stórfyrirtæki sem byggi ekki á auðlindum.

„Í grunnin erum við með auðlindahagkerfi og í þeirri stöðu vill það vera þannig að hlutirnir koma frekar til manns. Fiskurinn í sjónum er til staðar eins og íslensk náttúra sem laðar að ferðamenn eða orkan þó vissulega þurfi viðskiptavit til að búa eitthvað til úr því en grunnurinn er til staðar. Það sem er hins vegar áskorun fyrir okkur er að búa til árangur úr engu. Ef maður horfir á lönd sem standa okkur nærri eins Danmörk eða Svíþjóð þar sem orðið hafa til stór alþjóðleg fyrirtæki eins og Lego, Spotify, Carlsberg eða IKEA.

Það er því mikilvægt að við náum að búa til fleiri alþjóðleg fyrirtæki og við höfum svo margt með okkur. Við erum vinnusöm, vel menntuð o.s.frv. en þetta er líka spurning um hvernig við hugsum. Það sem maður hefur áhyggjur af í þessu samhengi er hvort að fjármagnsmarkaðurinn sé nógu sterkur til að geta stutt við næstu Marel, Össur eða CCP þá sérstaklega þegar þarf að sækja fjármagn til að geta sótt af alvöru. Það er t.d. orðið mjög langt síðan að fyrirtæki sótti fjármagn á markaði hérna heima til þess að sækja fram erlendis.

Það eru virkilega tækifæri til staðar en þegar maður hugsar um stórhuga íslensk fyrirtæki eða frumkvöðla þá finnst mér það vera áskorun að búa til rétta innviði á fjármagnsmarkaðnum til að geta stutt betur við sókn í íslensku atvinnulífi. Vonandi tekst okkur hjá Alfa sem og öðrum aðilum á fjármagnsmarkaði að veita aukinn stuðning í sókn fyrir íslenskt atvinnulíf.“

Nánar er rætt við Gunnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .